Strákarnir héldu draumi mínum lifandi

Aðalsteinn Jóhann og Santiago Feuillassier, leggja á ráðin í leik gegn KFG í ágúst. Mynd/Hafþór Hrei…
Aðalsteinn Jóhann og Santiago Feuillassier, leggja á ráðin í leik gegn KFG í ágúst. Mynd/Hafþór Hreiðarsson.

Völsung­ur vann stór­sig­ur á KFA á Reyðarf­irði í lokaum­ferð 2. deild­ar karla, 8:3 á laugardag í síðustu viku og tryggði þar með sæti sitt í 1. deild karla í knatt­spyrnu á næsta ári. Aðalsteinn Jóhann Friðriksson þjálfari Völsunga var að vonum ánægður með árangurinn og segist ætla að njóta áður en plön verða lögð fyrir næsta sumar

Þjálfarar og fyrirliðar í 2. deild spáðu í vor Völsungi 9. sæti og það voru því ekki margir sem voru að velta fyrir sér sæti í Lengjudeildinni þegar vertíðin hófst. Aðalsteini tókst hins vegar að búa til gríðarlega góða stemningu innan liðsins og Völsungur hefur verið á eldi í sumar. Ekki spillir fyrir að hinn ungi framherji, Jakob Gunnar Sigurðsson fór með himinskautum í sumar. Hann skoraði fjög­ur mörk fyr­ir Völsung í lokaleiknum og endaði sem markakóng­ur 2. deild­ar með 25 mörk skoruð en hann samdi snemma sum­ars við KR-inga um að ganga til liðs við þá í vet­ur.

Fóru að trúa

Aðalsteinn Jóhann segist sjálfur ekki hafa verið að velta fyrir sér að fara upp um deild í byrjun sumars, en trúin jókst jafnt og þétt. „Ég átti nú kannski ekki von á þessu, alls ekki. Í sjálfu sér vorum við ekkert að setja okkur þetta markmið til að byrja með en á einhverjum tímapunkti byrjuðum við að trúa,“ segir hann.

Ástríðan mikilvæg

Völsungsliðið

Þá segir Aðalsteinn að lykillinn að árangrinum sé liðsheildin, frábær stemning hafi myndast innan hópsins og ástríðan verið til staðar allan tímann.

„Hópurinn er frábær og það sem okkur tókst sem er ekki endilega sjálfgefið er að mynda ótrúlega samheldinn hóp. Við erum t.d. með leikmenn sem eru ekki héðan af svæðinu en hafa lagt mikið á sig og setja hjartað í þetta og það hjálpar til við að búa til svona öflugt lið. Ef þú ætlar upp um deild á Húsavík þá verður að vera til staðar ástríða og hún var svo sannarlega til staðar hjá okkur,“ segir Aðalsteinn Jóhann og bætir við að það hafi einfaldlega tekist að búa til hrikalega gott lið.

Tími til að njóta

Þegar blaðamaður Vikublaðsins ræddi við Aðalstein Jóhann í byrjun vikunnar viðurkenndi hann að vera vart kominn niður eftir frækinn sigur á laugardag og sæti í Lengjudeildinni.

„Þegar við settumst niður í vor þá settum við ekki markmið í sjálfu sér sem lið, heldur bað ég strákana að setja sér sjálfir markmið og ef þeir fylgdu þeim þá skilar það sér inn í liðið. Og ég bað þá líka um að setja sér drauma útkomu. Markmiðið sem ég setti strax fyrir liðið, við vorum eiginlega búnir að ná því strax í júlí og ég setti mér einn draum og draumur minn var að þjálfa Völsung á hærra leveli. Þannig að ég er rosalega glaður yfir því að strákarnir hafi leyft þessum draumi að lifa,“ segir stoltur Aðalsteinn Jóhann og bætti við að framhaldið verði rætt þegar menn eru komnir niður eftir frábæran endi á tímabilinu.

„Ég er ekki kominn þangað, mig langar aðeins til að njóta og fagna áður en ég sest niður og fer að búa til einhver plön. En eins og  ég segi þá er ég kannski ekki alveg lentur til að gera það strax.“

Uppbygging í farvatninu

Aðstöðumál hafa verið í umræðunni að undanförnu en útlit er fyrir að endurnýjun þurfi að eiga sér stað áður en fyrsti leikur hefst í Lengjudeildinni að ári vegna reglna hjá KSÍ.

Umræðan hefur ekki farið framhjá Aðalsteini Jóhanni en hann segist hafa leitt hana hjá sér og einbeitt sér að því sem gerðist inni á vellinum, en hann fer ekki leynt með það nú, að lyfta þurfi grettistaki til að gera aðstöðuna sómasamlega.

„Ég vil að sjálfsögðu sjá aðeins betri aðstöðu í vallarmálum. Þetta er að verða svolítið gamalt og þreytt hjá okkur,“ segir hann.

Aðspurður um hvort ekki sé gerð krafa um stúku í Lengjudeildinni svarar Aðalsteinn Jóhann að það hafi ýmsir rætt það við sig nú undir lok sumars. „Mig persónulega langar meira í nýjan völl en ég í sjálfu sér veit ekki nákvæmlega reglurnar í þessu. Vonandi verða einhverjir sem taka það samtal og ef það þarf stúku þá verður bara að gera það. Ég vona nú að það verði ekki bara einhverju hent upp í fljótheitum. Við verðum að hugsa þetta til lengri tíma og að aðstaðan í kringum þetta verði sem flottust en ég hef ekki tekið þátt í neinum slíkum umræðum sjálfur. Enda vildi ég bara horfa í næsta leik og áfram gakk og njóta þess að vera í þessari stöðu og taka þátt í henni,“ útskýrir Aðalsteinn Jóhann.

Kvennalið Völsungs í góðri stöðu

Þó tímabilinu sé lokið hjá strákunum er Aðalsteinn Jóhann aldeilis ekki kominn í frí, því hann er einnig aðalþjálfari kvennaliðs Völsungs sem kom sér um síðustu helgi í góða stöðu til að vinna sér sæti í Lengjudeild kvenna.

Völsungsstelpur tóku á móti KR í mikilvægum leik á sunnudag en liðin berjast um annað sætið í 2. deild sem gefur þátttökurétt í Lengjudeildinni að ári. Skemmst er frá því að segja að Völsungur hafði betur í hörku leik 3-2 og eru með örlögin í höndum sér. KR er sem stendur í 2. sæti með 42 stig og Völsungur með 41, en Völsungur á tvo leiki eftir á meðan KR á aðeins einn.

„Já þær komu sér í bílstjóra sætið um helgina, en þetta var algjör úrslitaleikur. Ef KR leikurinn hefði tapast þá væri í raun annað sætið úti hjá okkur en ef við myndum vinna þá komum við þessu í þá stöðu að vera með þetta í okkar höndum. Þannig að við settum þetta upp sem úrslita leik en líka þannig að við hefðum engu að tapa og allt að vinna,“ segir Aðalsteinn Jóhann.

„Við náðum að hanga á því í restina, hvort sem það var lukka, seigla eða bara gæði hjá okkur en það skiptir auðvitað ekki máli því við náðum í þessi úrslit og draumurinn heldur áfram. Nú er ég að reyna að gera það sama með stelpurnar eins og ég gerði hjá strákunum að segja þeim að njóta þess að vera partur af þessu. Augnablikin eru svo fljót að fara, það þarf að muna að geta notið þeirra,“ segir hann.

Í dag, laugardag klukkan 15:30 taka stelpurnar í Völsungi á móti ÍH og hvetur Aðalsteinn Jóhann, Völsunga nær og fjær til að mæta á völlinn og styðja stelpurnar í þessari baráttu.

„Þetta verður ekki auðveldur leikur, ef menn halda að það séu einhverjir skildu sigrar í þessu þá er það alls ekki þannig,“ segir hann að lokum.

Deildarkeppninni líkur svo með útileik á móti Haukum sem þegar hafa tryggt sér sigur í deildinni.

 

 

Nýjast