Stóra bomban

Einar Brynjólfsson.
Einar Brynjólfsson.

Sæl Hilda Jana og Guðmundur Baldvin.

Ég verð að viðurkenna að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svar þitt við síðasta bréfi mínu, Hilda Jana. Þú ferð undan í flæmingi þar sem um starfsmannamál sé að ræða, en skirrist þó ekki við að saka fyrrverandi framkvæmdastjóra Eyþings um trúnaðarbrest.

Nú vill svo til að mér hafa borist í hendur ýmis gögn sem tengjast þessu máli. Þar kemur skýrt fram að þinghald í málinu, sem fram fór þann 27. janúar sl., var opið, þannig að hver sem áhuga hafði gat fylgst með því sem þar fór fram, t.d. áhugasamir blaðamenn (sem hafa sýnt málinu undarlegt tómlæti hingað til). Auk þess hefur brottrekni framkvæmdarstjórinn áréttað í bréfi til alls sveitarstjórnafólks, sem að Eyþingi stendur, að hann hafi ekki óskað eftir trúnaði varðandi málavexti og dómsáttina sem gerð var.

Af þessu sama bréfi má ráða að kostnaður okkar útsvarsgreiðenda geti verið miklu hærri en þær 14.800.000 kr. sem þegar hefur verið fjallað um. Þar eru færð rök fyrir því að herlegheitin, þ.e. launakostnaður framkvæmdastjórans án vinnuframlags í 8 mánuði, dómsáttin sjálf og málskostnaður Eyþings, kosti útsvarsgreiðendur sveitarfélaganna vel yfir þrjátíu milljónir króna.

Ég ætla að leyfa mér að birta hluta af fundargerð sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps frá 17. þ.m. þar sem fjallað er um þetta mál:

Almenna reglan í góðri stjórnsýslu er að forsvarsmenn nýti almannfé á sem bestan og skilvirkastan hátt. Í annan stað að ráðningar og uppsagnir byggist á faglegum og lögmætum grunni. Í þriðja lagi að réttar upplýsingar liggi fyrir handa þeim stjórnvöldum sem beina aðkomu eiga að tiltekinni stofnun - hér sveitastjórnir og Eyþing.

Hafi orðið verulegur misbrestur á framangreindu í þessu máli telur sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps að forsvarsmenn Eyþings eigi að upplýsa sveitarstjórnir nánar um forsendur málsins og tilgang þessa, að því er virðist, tilhæfulausa aukakostnaðar.

Af gögnum málsins má ráða að stjórn Eyþings hafi ekki staðið rétt að brottvikningunni, enda hefði hún tæplega samþykkt dómsáttina, sem felur í sér miskabætur, skaðabætur og greiðslu málskostnaðar stefnanda, ef svo hefði verið. Auk þess virðist sem sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hafi ekki verið upplýst að fullu um málavexti. Um aðrar sveitarstjórnir sem áttu aðild að Eyþingi vil ég ekkert fullyrða.

Af þessu tilefni skora ég á ykkur, núverandi og fyrrverandi stjórnarformenn Eyþings, að veita okkur útsvarsgreiðendum eftirfarandi upplýsingar:

Hversu mikill kostnaður hefur hlotist af málinu í heild sinni, sundurliðaður eftir launagreiðslum og launatengdum gjöldum án vinnuframlags framkvæmdastjórans, málskostnaði Eyþings og miska- og skaðabótum? Gott væri að fá tölurnar sundurliðaðar eftir sveitarfélögunum sem eiga aðild að Eyþingi.

Nú liggur fyrir að um háar upphæðir af almannafé er að ræða og að framkvæmdastjórinn hefur ekki óskað eftir trúnaði um málið. Hvers vegna hefur áhersla verið lögð á að málið fari leynt? Færi ekki betur á því að útsvarsgreiðendur fengju ítarlegar upplýsingar, án eftirrekstrar míns?

Hvaða ágallar á uppsagnarferlinu knúðu stjórn Eyþings til að samþykkja dómsátt í stað þess að klára málaferlin?

 -Höfundur er nískur útsvarsgreiðandi og fyrrverandi Alþingismaður

Nýjast