Stofna NorðurHjálp nytjamarkað til að létta undir með bágstöddum

Konurnar sem standa að NorðurHjálp sem opnar í þessari viku, Guðbjörg Thorsend, Sæunn Ísfeld Guðmund…
Konurnar sem standa að NorðurHjálp sem opnar í þessari viku, Guðbjörg Thorsend, Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir og Stefanía Fjóla Elísdóttir, Önnu Jónu Viggósdóttur vantar á myndina.

NorðurHjálp er nýr nytjamarkaður sem opnaður verður að Hvannavöllum 10 á Akureyri í næstu viku, fimmtudaginn 26. október kl. 12.30. Að honum standa fjórar konur sem allar hafa um árabil tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi og eiga þá ósk heitasta að láta gott af sér leiða.  Þetta eru þær Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir, Guðbjörg Thorsen, Anna Jóna Vigfúsdóttir og Stefanía Fjóla Elísdóttir. Alla hafa þær að baki langa reynslu af sjálfboðaliðastörfum.

 Sæunn segir að undanfarna daga hafi þær stöllur verið að sanka að sér allra handa dóti, húsgögnum, fatnaði, leikföngum, glermunum og bókum, eða bara hverju sem er sem fólk vill láta af hendi og gefa framhaldslíf hjá öðrum. „Við þiggjum allt, stórt og smátt, gamalt og nýtt,“ segir hún og að viðtökur hafi verið góðar. Markaðurinn sé óðum að taka á sig fína mynd og fyllast af fjölbreyttum varningi.

 Hvað getum við gert?

 Norðurhjálp er til húsa við Hvannavelli 10 þar sem Hjálpræðisherinn var áður til húsa og hafa þær til umráða fremri hluta hússins. Að baki þeim hefur hljómsveitin Færibandiðæfingaaðstöðu þannig að ef til vill má búast við dúndrandi fjöri á markaðnum af og til. Þær greiða leigu fyrir húsnæði og segir Sæunni að henni sé stillt í hóf, en öll innkoma af markaðnum rennur að öðru leyti til þeirra sem ekki hafa mikið handa á milli og þurfa aðstoðar með. Engin laun eru greidd, öll vinna er sjálfboðaliðastarf. „Við verðum varar við að vaxandi neyð hjá hópi fólks á Norðurlandi og langaði að leggja okkar af mörkum til að létta undir með því,“ segir Sæunn. „Við vorum að spjalla um þetta einn daginn og hvað við gætum gert til að gera ástandið betra. Þá kom þessi hugmynd upp og það sem meira er auðvitað þá hrintum við henni í framkvæmd. Við byrjum að undirbúa þetta, finna húsnæði og safna saman varningi.“

 Strykja þá sem á þurfa að halda

 Sæunn segir að allur hagnaður verði nýttur til að koma bágstöddum til hjálpar. „Það er ekki leyndarmál að staðan er víða mjög þung og erfið. Það er skelfilegt að vita til þess að fólk á ekki pening til að kaupa nesti fyrir börnin sín í skólann, það hefur allt hækkað gríðarlega í því efnahagsástandi sem ríkir í þjóðfélaginu og fólk finnur verulega fyrir því. Leiga hefur margfaldast, að versla í matinn, lyf og bara allt sem þarf til að reka heimili hefur farið upp úr öllu valdi og margir sem ekki ráða við þennan pakka. Það er varla hægt með t.d. innkomu af einum launum og eða á lægstu laununum. Með því að setja þennan markað á fót vonumst við til að geta létt lífið hjá einhverjum, það er sannarlega þess virði,“ segir hún. „Við gátum ekki hugsað okkur að sitja aðgerðarlausar hjá og gera ekki neitt.Við viljum gefa af okkur og þetta er okkar leið til þess.“

Nokkrir aðilar hafa veitt aðstoð og segir Sæunn að flestir sem það geri séu að drukkna í beiðnum frá bágstöddu fólki. Það eigi sem dæmi við um Matargjafir á Akureyri sem heldur betur hafi lagt mörgum lið um árin. „Eftir því sem ástandið versnar verður ásókn í aðstoð meiri, það verða alltaf fleiri og fleiri sem lenda í því að ná ekki endum saman í þeirri dýrtíð sem ríkir.“

 Hún segir að Norðurhjálp verði góð viðbót við þá nytjamarkaði sem þegar eru fyrir hendi á Akureyri. „Við erum ekki að taka neitt frá neinum, okkar markaður er viðbót við það sem fyrir er, eykur fjölbreytnina.  Nytjamarkaðir eru vinsælir, fólk hefur gaman af því að koma og skoða og við tökum vel á móti okkar viðskiptavinum.“

Sæunn segir að vel hafi gengið og þær hlakki til að opna eftir viku. „Við erum allar með mikla reynslu af sjálfboðaliðastörfum og hefjum þetta starf af mikilli eftirvæntingu. Auðvitað vonum við að bæjarbúar og gestir taki þessu framtaki okkar vel, líti við og finni vonandi eitthvað sem nýtist þeim,“ segir hún.  „Við tökum við öllu sem fólk vill gefa okkur og komum því í verð, því þó hluturinn hafi lokið hlutverki sínu á einu heimili getur hann eflaust haldið áfram annars staðar.“ Sæunn bætir við að þær taki einnig við fjárstyrkjum frá þeim sem vilji vera með í þessu framtaki  og komi áleiðis til þeirra sem á þurfa að halda.
 

Nýjast