Stofa Jennýjar Karlsdóttur opnuð á Safnasafninu

Jenný Karlsdóttir afhenti Safnasafninu á Svalbarðsbarðsströnd ævistarf sitt, en safn hennar er einst…
Jenný Karlsdóttir afhenti Safnasafninu á Svalbarðsbarðsströnd ævistarf sitt, en safn hennar er einstaklega fjölbreytt og vandað .

Jennýjarstofa var opnuð á Safnasafninu á Svalbarðsströnd í dag laugardag samhliða opnun á sumarsýningum safnsins.  Jenný Karlsdóttir hefur viðað að sér þekkingu á handverki alla tíð. Hún safnað handverki og munstrum í áratugi. Safnið hennar er einstaklega fjölbreytt og vandað, og afhenti Jenný Safnasafninu það við hátíðlega athöfn.

„Við megum ekki gleyma því að handverkið er sá menningararfur sem gerði okkur kleift að lifa af harðindi, hungur og drepsóttir,“ segir Jenný Karlsdóttir.  „Mér finnst virkilega gaman að fá tækifæri til að taka þátt í að koma á framfæri þessum hluta sögu okkar sem konur hafa skapað og lofa honum að skína til að vera metin að nýju fyrir eljuna, vandvirknina og listina sem handverkið er. Það sem var er grundvöllur að því sem er.“

Jenný Karlsdóttir fæddist 1939 á Akureyri, ólst þar upp og býr þar enn. Hún er alin upp við ríka handverksmenningu og hefur alla tíð sinnt fjölbreyttu handverki með fram heimilis- og kennslustörfum. Jenný fékk snemma áhuga á munstrum. Hún hefur safnað margvíslegum munstrum og gefið út í heftum undir merkinu Munstur og menning (munstur.is). Tilgangurinn er að miðla munstrunum og gera þau aðgengileg til nýrrar sköpunar.

Nýjast