Stjórnin og óður til Bowies á Græna hattinum
Stjórnin er að fagna 30 ára starfsafmæli sínu á þessu ári og hafa heimsótt Græna hattinn í tvígang til að fagna þessum tímamótum. Vegna fjölda áskorana ætla þau að hafa eina og síðustu aukatónleikana annaðkvöld, föstudagskvöldið 9. nóvember og enda afmælisárið með stæl. Uppselt er á tónleikana en þeir hefjast kl. 22.00.
Á laugardagskvöldið 10. nóvember er það Hljómsveitin´85 sem stígur á stokk en hún hefur undanfarið vakið athygli og lof fyrir frábæran flutning á tónlist David Bowie. Hljómsveitina skipa þeir Róbert Marshall, Þór Freysson, Hersir Sigurgeirsson, Gunz A La Tomma og Kristinn Gallagher.
Bandið hefur síðustu ár spilað rjómann af því besta frá áttunni en undanfarið einbeitt sér að tónlist Bowie. Hljómsveitin flytur á þriðja tug laga sem spanna stórkostlegan feril þessa magnaða tónlistarmanns.
Bowie aðdáendur og rokkunnendur allir ættu alls ekki að láta þessa tónleika fara fram hjá sér. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00