20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Stjórn Norðurorku telur gildandi gjaldskrá Reykjaveitu sem sér m.a. Grýtubakkahreppi fyrir heitu vatni eðlilega
Stjórn Norðurorku telur gildandi gjaldskrá Reykjaveitu sem sér m.a. Grýtubakkahreppi fyrir heitu vatni eðlilega miðað við fyrirliggjandi forsendur. Mikilvægt sé að afkoma veitunnar standi undir rekstri og viðhaldskostnaði til framtíðar. Gjaldskrá Reykjaveitu hefur í tvígang verið hækkuð mun minna en hitaveitan á Akureyri, auk þess sem hún hefur fylgt verðlagi í samræmi við það fyrirkomulag sem lá fyrir við stofnun veitunnar.
Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps fór á liðnum vetri fram á að gjaldskrá Reykjaveitu yrði lækkuð og að verðmunur á milli íbúa á Akureyri og í Grýtubakkahreppi yrði ekki meiri en 30% í upphafi árs 2026. Gjaldskráin er um þessar mundir um 60% hærri en sú sem notendur aðalveitunnar greiða, m.a. Akureyringar. Orkukostnaður íbúa í Grýtubakkahreppi er sá þriðji hæsti á landinu samkvæmt skýrslu Byggðastofnunar um húshitunarkostnað.
Stjórn Norðurorku hefur fjallað um erindi sveitarstjórnar Grýtubakkahrepps varðandi lækkun verðskrár og segir í bókun að samkvæmt samkomulagi um lagningu Reykjaveitu frá árinu 2006 sé kveðið á um að gjaldskrá skuli taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Það hafi gengið eftir en þróunin frekar verið undir verðlagsþróun, ef eitthvað er. Einnig sé gert ráð fyrir sama fastagjaldi og er í gildi á Akureyri og það gengið eftir.
Niðurgreiðslur á rafmagni hafa aukist mikið
Í erindi Grýtubakkahrepps segir að grunnforsenda fyrir lagningu Reykjaveitu hafi verið að húshitunarkostnaður yrði lægri en við rafmagnskyndingu. Það sé með öllu óeðlilegt og verulega ósanngjarnt að hitaveitan sé um 17% hærri en rafmagnskynding. „Mikilvægt er að horfa til þess að niðurgreiðslur rafmagns til húshitunar voru allt aðrar á árunum 2005/2006 en þær eru nú,“ segir í bókun stjórnar Norðurorku. Þær hafi á liðnum árum, hækkað um 28% umfram verðlag á tímabilinu frá því samkomulag var gert um lagningu Reykjaveitu. Ánægjulegt sé að tekist hafi að jafna húshitunarkostnað á landinu líkt og að var stefnt en um leið verður samanburður hitaveitna við niðurgreidda rafmagnshitun heitaveitum í óhag í einhverjum tilvikum.