Stefnumótun, sérstaða sjúkrahússins á Akureyri

Anna Kolbrún.
Anna Kolbrún.

Á nýliðnu landsþingi Miðflokksins var fest í sessi sú stefna að styrkja eigi sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) til þess að veita sérfræðiþjónustu enda er það annað af tveimur háskólasjúkrahúsum landsins, það dregur úr álagi og kostnaði, t.d. með minni ferðakostnaði sjúklinga og fjölskyldna þeirra og með því er verið að tryggja heilbrigðisþjónustu um allt land.

Sjúkrahúsið á Akureyri er skilgreint sem sérhæft sjúkrahús líkt og Landspítali (LSH) þess vegna er mikilvægt að sýna það í verki. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem birtist nýverið má lesa að hún er skrifuð fyrst og fremst með þarfir höfuðborgarsvæðisins í huga. Greinilegt er að LSH mun soga til sín frekari fjármuni á komandi árum og það er umhugsunarvert að ekki er tekið tillit til þess í fjármálaáætluninni að aukning er einnig á starfsemi bráðamóttöku, bráðalegudeilda og stoðdeilda sjúkrahússins á Akureyri og þjónusta göngudeilda er ört vaxandi. Eins og þetta birtist er ljóst að fjárveitingar sem ætlaðar eru til sjúkrahússins á Akureyri duga engan veginn og hættan er sú að öll þjónusta við landsmenn endi á suðvesturhorninu og þá sérstaklega á ofhlöðnum Landspítala  með tilheyrandi álagi, ferðalögum og óhagræði fyrir alla.

Heilbrigðisráðherra hefur boðað að þverpólitísk heilbrigðisáætlun líti dagsins ljós, áætlunin átti að koma fram í febrúar sl. en ekkert bólar á henni enn og í skýrslu ríkisendurskoðunar um Sjúkratryggingar Íslands sem kaupanda að heilbrigðisþjónustu kom fram að sérfræðiþjónusta sé ófullnægjandi. Það eitt og sér er sláandi staðreynd. Rammasamningur við sérfræðilækna virðist virka betur fyrir þá sem eru á höfuðborgarsvæðinu en fyrir þá sem starfa utan þess.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sagði að geðheilbrigðisáætlun til 2020 verði hrint í framkvæmd og hún fjármögnuð. Geðheilbrigðisþjónusta á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum úti um land verði efld og bráða- og barna- og unglingageðdeildum Landspítalans verði tryggt fjármagn til að standa undir rekstri þeirra. Ekkert er minnst á þjónustu sjúkrahússins á Akureyri í þessu sambandi. Ekki er vikið einu orði að BUG-teymi, sem er þverfaglegt teymi sem sinnir fjölþættum og alvarlegum vanda barna á Akureyri og í nágrenni Akureyrar.

Þá aftur að fjármálaáætluninni, talað er um að tekið verði á geðsjúkdómum með fjölþættum aðgerðum og það um allt land. Ef skoðað er áfram inn í áætlunina má sjá að styrkja á göngudeildarþjónustu BUGL í Reykjavík um 1 milljarð. Fjármunir eru m.a. ætlaðir í að fjölga starfsfólki við BUGL. Ekki er vikið einu orði að hvernig styrkja á þjónustu sem BUG teymið á Akureyri veitir.

Sjúkrahúsið á Akureyri sinnir mikilvægu hlutverki, sérstaða þess kemur hvað best fram í þeirri sérfræðiþekkingu sem þar er að finna. En það þarf að halda vel á spilunum, það þarf skýra pólitíska stefnumótun í verki. Því miður virðist það skorta hjá ríkisstjórninni. Það sést best í stjórnarsáttmálanum og í fjármálaáætluninni.

-Anna Kolbrún Árnadóttir, 2. varaformaður og þingmaður Miðflokksins í NA – kjördæmi. 

Nýjast