Starfsleyfi til fiskþurrkunar á Laugum í Reykjadal framlengt um hálft ár

Fiskþurrkun Samherja að Laugum
Fiskþurrkun Samherja að Laugum

„Fiskþurrkun Samherja að Laugum er fjölmennur vinnustaður í sveitarfélaginu og lýsir sveitarstjórn þungum áhyggjum af stöðu mála, þar sem óljóst er um framtíð starfanna,“ segir í bókun sem Jóna Björg Hlöðversdóttir lagði fram á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar. Þurrkun  fiskafurða á Laugum var þar til umræðu.

Sveitarfélagið hefur fylgst grannt með stöðu mála eða frá því Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra gaf út starfsleyfi til eins árs haustið 2023 vegna heitaloftsþurrkunar fiskafurða á staðnum. Auknar kröfur hafa verið gerðar til mengunarvara og vöktunar en vinnslan er á vatnsverndarsvæði Laxár og M‎vatns.

 Byggðarráð fundaði með fulltrúum Samherja í mars síðastliðnum þar sem farið var yfir starfsemina á Laugum og stöðuna vegna þessara auknu krafna. Sveitarstjórn var jafnframt upplýst nú í september á fundi með fulltrúum Samherja um að sótt hefði verið um sex mánaða framlengingu á starfsleyfi til að skapa aukið svigrúm til að bregðast við auknum kröfum.

Kostnaðarsamt að uppfylla kröfur og óvíst að þær skili árangri

Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landsvinnslu Samherja segir að starfsleyfi sem átti að renna út 15. nóvember næstkomandi hafi verið framlengt og gildi fram á vor, til 15. maí 2025. „Kröfur sem gerðar eru til starfseminnar hafa aukist sem er eðlilegt þar sem hún fer fram á verndarsvæði Laxár og Mývatns. Það er afskaplega kostnaðarsamt að uppfylla allar kröfur sem gerðar eru en að sem setur strik í reikninginn er að þó það verði gert er engin trygging fyrir hendi að lausnin sé fullkomin. Það hefur einmitt sýnt sig á öðrum stöðum sem eru að úrbætur skila ekki endilega árangri,“ segir Gestur.

Tíminn í vetur verður nýttur til að fara yfir málið. „Við fáum svigrúm til að kanna allar mögulegar leiðir sem færar eru og velta fyrir okkur hvernig best er að bregðast við, “ segir hann.  Um 20 manns starfa hjá Fiskþurrkun Samherja á Laugum, sem er einn af fjölmennari vinnustöðum sveitarfélagsins. Fram kemur í bókun meirihlutans að íbúar verði upplýstir um framvindu málsins og boðað verði til íbúafundar verði þörf á því.  „Mikilvægt er að tryggja störf á svæðinu og mun sveitarfélagið nú sem áður vinna að því.“

 

Nýjast