Starfsfólk HA á ferð og flugi

Háskólinn á Akureyri                   Myndir aðsendar
Háskólinn á Akureyri Myndir aðsendar

Við tókum hús á tveimur starfskröftum Háskólans á Akureyri á dögunum sem bæði höfðu verið á ferðalögum tengdum sínum störfum. Störf við skólann bjóða upp á ýmis tækifæri, hvort sem það er í akademíu eða stoð- og stjórnsýslu.

Doktorsvörn negld við bjálka í Svíþjóð

Birna Svanbjörnsdóttir, dósent við Kennaradeild Háskólans á Akureyri, tók í fyrsta skipti sæti í erlendri matsnefnd doktorsverkefnis nú á dögunum. „Ég kannaðist við aðalleiðbeinanda doktorsnemans, Evu Alerby prófessor við kennaradeild Luleå tekniska universitet og hafði hitt hana nokkrum sinnum, bæði á erlendum ráðstefnum og svo heimsótti hún Kennaradeild HA fyrir nokkrum árum og sýndi mikinn áhuga á samstarfi deildanna. Hún hafði samband við mig snemma á árinu og var að leita að sænskumælandi aðila í matsnefnd vegna doktorsvarnar,“ segir Birna aðspurð um aðdragandann að því að hún tók sæti í matsnefndinni.

Matsnefndin hefur það hlutverk að meta hvort verkið sé tækt til varnar og hvort vísa megi til andmælenda. Þá tekur nefndin þátt í vörninni sjálfri og spyr doktorsnema spurninga ásamt andmælendum og að lokum gengur hún frá lokamati eftir vörn og kynnir niðurstöðu matsins formlega fyrir doktorsnema, leiðbeinendum og andmælendum.

„Ég hef ekki áður dæmt doktorsverkefni við erlendan háskóla og það kom mér á óvart hversu víðtækt verkefnið var og hve mikla ábyrgð matsnefndin hafði,“ segir Birna um upplifunina af því að taka þátt í þessu og bætir við: „Það var líka áhugavert að við þrjú í matsnefndinni þekktumst ekkert og máttum ekki vita hvert af öðru fyrr en við hittumst í vörninni“. Birna segir frá því að matsferlið í menntunarfræðum hér á Íslandi, þar sem hún þekkir vel til, sé öðruvísi. „Hér metur doktorsráð skóla eða sviðs hvort verkefni sé tækt til að senda til andmælenda en ekki matsnefnd. Eingöngu andmælendur spyrja spurninga til doktorsnema í vörninni og eftir vörn eru það andmælendur sem meta hvort verkefnið sé staðið eða ekki,“ útskýrir Birna.

Birna við rannsóknartorg háskólans. Þar er það til siðs að negla doktorsritgerðina þegar hún er tilbúin til varnar á þennan bjálka og þar hangir hún fram yfir vörn. Það er kallað að spika (negla).

Fjármálin í Finnlandi

Hólmar Erlu Svansson, framkvæmdastjóri Háskólaskrifstofu, og Helga María Pétursdóttir, forstöðumaður Fjármála og greiningar, sóttu ráðstefnu European University Association í síðustu viku sem fór fram í Helsinki í Finnlandi.

„Það var gríðarlega gott og gagnlegt að heyra hvernig lönd eru að útfæra árangurstengda fjármögnun háskóla. Það var líka afar ánægjulegt að með í för var Gylfi Þorsteinn Gunnlaugsson, frá Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu þar sem hann hefur verið aðalsérfræðingur ráðuneytisins hvað varðar nýtt reiknilíkan háskóla á Íslandi,“ segir Hólmar aðspurður um hvað stóð upp úr á ráðstefnunni.

Árið 2023 var breytt fyrirkomulag á fjárframlögum til háskólanna á Íslandi í formi nýs reiknilíkans kynnt. Framlögin verða meira árangurstengd, breytingar verða talsverðar og taka gildi árið 2025. Því er mjög mikilvægt fyrir fulltrúa skólanna að fá tækifæri sem þessi til að bera saman, læra hvert af öðru og eiga samtal um hvernig nýtt reiknilíkan mun virka.

Fulltrúar Íslands sem voru á svæðinu gripu tækifærið og funduðu sérstaklega. „Í svona ferðum felast líka tækifæri til tengslamyndunar og samtala um allt mögulegt sem snýr að rekstri háskóla,“ segir Hólmar að lokum, ánægður með árangur ráðstefnunnar og ferðalagsins.

Hólmar og Helga María lengst til vinstri, með fulltrúum HÍ og  HVIN

Nýjast