20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Staða skólasálfræðings við VMA lögð niður næsta haust
Staða skólasálfræðings við Verkmenntaskólann á Akureyri verður lögð niður frá og með næsta hausti. Sálfræðingur tók fyrst til starfa við VMA haustið 2012, fyrst í 50% stöðugildi í tilraunaskyni en síðan í auknu starfshlutfalli eða 75%. Eftirspurn eftir þjónustu sálfræðings er mikil, en hlutverk hans er að veita nemendum ráðgjöf, fræðslu og bjóða þeim sem á þurfa að halda upp á einstaklingsviðtöl. Oft hefur fallið í hlut sálfræðings að frumgreina vanda nemenda og meta þörf á meðferðarúrræði.
Kennarafélag VMA, náms- og starfsráðgjafar skólans, forvarnarfulltrúti VMA og stjórn nemendafélagsins Þórdunu hafa þungar áhyggjur af afleiðingum þessarar ákvörðunar og sendu frá sér ályktun í vikunni þar um. Fram kemur að ákvörðun þessa megi rekja til viðvarandi rekstrarvanda skólans, fjárframlög endurspegli ekki fjölbreytt námsval og nemendahóp sem skólann sæki, auk endalausra hagræðingarkrafna frá hinu opinbera.
Vaxandi vanlíðan og aukið álag
Kennarar og nemendur við skólann óttast að í kjölfar þess að staða sálfræðings verði skorin niður aukist brottfall nemenda, vanlíðan fari vaxandi og aukið álag verði á stofnanir og félagasamtökum sem sinni geðheilbrigðisþjónustu í bænum með tilheyrandi bið og uppsöfnuðum vanda. Þá sé næsta víst að álag muni aukast á náms- og starfsráðgjafa skólans sem þó hafi ærin verkefni. Um 900 nemendur eru í VMA og ljóst að sálfræðingur í 75% stöðugildi nær engan veginn að anna þeim öllum, „en er vissulega betri en enginn,” eins og það er orðað í ályktun.
Skimun fyrir einkennum þunglyndis, kvíða og streitu meðal nemenda skólans bendir til að fjöldi nýnema þurfi á aðstoð að halda. Inn á framhaldsskólastig komi nú nemendur sem glími við vandamál sem ekki þekktust fyrir aðeins örfáum árum, skólaforðun sé þar ofarlega á blaði. Vanlíðan meðal ungs fólks hafi einnig aukist, ekki síst stúlkna og hinsegin nemenda. Stórum hluta þessara nemenda þykir best að ræða málin við skólasálfræðing.
Aðgengi að sálfræðingi getur skipt sköpum
Greitt aðgengi að sálfræðingi innan veggja framhaldsskóla getur skipt sköpum fyrir þann hóp sem glímir við sjálfsvígshugsanir. Nemendur af erlendum uppruna eru fleiri en áður og spár gera ráð fyrir að þeim fjölgi enn frekar á næstu árum. Margir séu markaðir af lífsreynslu sem þeir þurfi aðstoð við að vinna úr. Einnig hefur nemendum á starfsbraut fjölgað en innan þess hóps eru ungmenni sem glími við tilfinninga- og hegðunarvanda og er þörf fyrir þjónustu oft meiri og flóknari en annarra. Sálfræðingur gegni mikilvægu hlutverki í að styðja við þennan hóp.
Óyndisúrræði
Undanfarin ár hefur mikil áhersla verið lögð á snemmtæka íhlutun og samþættingu þjónustu og því skýtur það skökku við þegar skólastjórnendur grípa til þess óyndisúrræðis að segja upp lykilstarfsmanni þessarar þjónustu án þess að nokkuð komi í staðinn. Ljóst sé að afleiðingar af brotthvarfi sálfræðings úr starfi verði margvísleg og hafi neikvæð áhrif á ekki aðeins nemendur heldur líka starfsfólk og allt nærsamfélagið.