Spurt & svarað

Í Skarpi hafa nýverið komið fram greinar með athugasemdum sem beint er að einhverju leyti til Norðurþings og/eða sveitarstjórnar. Þó allar athugasemdirnar séu almennar og ekki til stakra sveitarstjórnarmanna kýs ég að svara hér fyrir mitt leyti. Tek sérstaklega fram að svörin eru út frá mínum sjónarhóli og ekki annarra.

Hvernig hafa reglur um húsaleigubætur breyst í Norðurþingi?

Harpa Steingrímsdóttir ber fram spurningar um sérstakar húsaleigubætur og breytingar á reglum þar að lútandi.

Svar:

Fyrst er rétt að nefna að rekstrarvandi leiguíbúða Norður­þings hefur verið viðvarandi til langs tíma. Í grófri mynd má segja að sveitarfélagið eigi verulega fleiri íbúðir en lögbundin verkefni útheimta og ennfremur hafi stór hluti þeirra verið leigður út verulega undir almennu markaðsverði. Þessi óheillaþróun hefur svo m.a. leitt af sér reglubundnar innborganir af skattfé aðalsjóðs til rekstrar á húsnæðinu. Og þrátt fyrir það hefur viðhald eignanna tæplega verið viðunandi. Þetta þarf því að breytast og stendur sá breytingarfasi yfir, m.a. með aðgerðum til að selja umframíbúðir.

Sjá einnig: Opið bréf til bæjarstjórnar

Annað er svo það að um áramótin síðustu tóku gildi á Alþingi lög um húsaleigubætur (nr. 75/2016). Með því urðu þær breytingar sem Harpa vísar til í grein sinni. Almennar húsaleigubætur færðust með þessu frá sveitarfélögunum, þ.m.t. Norðurþingi, og yfir til ríkisins, þ.e. Vinnumálastofnunar. Sveitarfélögin sinna hins vegar áfram greiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings (sem í eldri lögum hét „sérstakar húsaleigubætur“). Norðurþing greiðir þennan sérstaka húsnæðisstuðning eins og önnur sveitarfélög.

Hér er mest um vert að halda því til haga að þeir íbúar Norðurþings sem falla undir þau viðmið sem snúa að félagslegu húsnæði munu halda sínu húsnæðisöryggi hvað sem líður þessum framangreindu breytingum. Hvað varðar ítarlegri útlistun á viðmiðum félagslegs húsnæðis og réttindum hvers og eins íbúa til húsnæðisstuðnings fer best á því að vísa á heimasíðu Norðurþings, hina nýju heimasíðu Vinnumálastofnunar www. husbot.is og síðast en ekki síst hið ágæta starfsfólk Norðurþings sem sinnir hverjum og einum eftir bestu getu.

Gleymdist Reykjahverfi?

Atli Vigfússon veltir upp ýmsum álitamálum varðandi Reykjahverfið og ákvarðanir og rekstur Norðurþings í þeirri sveit; skólamál, ljósleiðara, hitaveitu, sorphirðu, hverfisráð, heimreiðar, póstdreifingu. Hluti af því sem Atli fjallar var til umfjöllunar á liðnum kjörtímabilum, s.s. ákvarðanir um skólamál og forgangsröðun fjárfestinga Orkuveitu Húsavíkur til íþróttamannvirkja á Húsavík í stað endurnýjunar hitaveitulagnar í Reykjahverfi.

Svar:

Fyrst vil ég segja að ég tel fullgild þau sjónarmið sem Atli nefnir varðandi þessi atriði sem upp komu á fyrri kjörtímabilum, en ég kýs að fjalla hér ekki um þau atriði frekar. Það er annarra en mín að svara fyrir þessi mál.

Sjá einnig: Gleymdist Reykjahverfið?

Ljósleiðarar í dreifbýli á Íslandi eru sér kapítuli í íslenskri pólitík. Í grófum dráttum á þá leið að Ríkið setur sér með vinstri hendi markmið um fjarskipti um land allt, en selur svo því miður með hægri hendi leiðirnar að þessum markmiðum. Þegar við tókum til starfa í upphafi þessa kjörtímabils var stefna ríkisvaldsins skýr; bæði á prenti og í orðræðu. Rifjum aðeins upp orð forsætisráðherra ársins 2014 (Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar) í sjálfu áramóta­ ávarpinu: „Á nýju ári verður hafist handa við eitt stærsta framfaramál sem hægt er að ráðast í til að styrkja innviði og byggðir landsins. Hafin verður vinna við átaksverkefni við að ljósleiðaravæða allt landið, hvern einasta bæ, hvern dal og fjörð og tengja þannig landið allt við hraðbraut upplýsinga og samskipta.“ [SDG 31/12 2014].

Okkar vandi á fyrrihluta þessa kjörtímabils í Norðurþingi var að trúa þessari vitleysu. Efndirnar hafa nefnilega verið litlar og eingöngu í því formi að etja sveitarfélögum saman í keppni um svolitla styrki, þar sem hærri meðgjöf og þéttari byggð hafa verið til að auka vinningslíkur. Við getum ekki beðið eftir efndum ríkisvaldsins í þessu. Nú hefur verið ákveðið að Norðurþing fari þegar í stað í lagningu ljósleiðara í Reykjahverfi og stefnt að verklokum á þessu ári (2017). Jafnframt verði strax hafinn undirbúningur lagningar ljósleiðara í þeim hluta dreifbýlis Norðurþings sem eftir stendur og stefnt að framkvæmd á næsta ári.

Sorphirðumál voru sett í nýjan og gerbreyttan farveg í Norðurþingi snemma á þessu kjörtímabili. Skemmst er frá því að segja að þau voru í miklum ólestri, með órekstrarhæfa sorpbrennslu og óumhverfisvæna meðhöndlun sorpsins. Ákveðið var að sorphirða með nýrri tilhögun og 3ja íláta flokkun yrði prófuð fyrst dreifbýlissvæða í Norðurþingi í Reykjahverfi. Í kjölfarið verði vankantar sniðnir af og tilhöguninni komið á í öllu sveitarfélaginu með áþekkum hætti. Eftir því sem ég hef kynnt mér hefur þetta farið ágætlega og leitast við að gera úrbætur á því sem upp hefur komið (s.s. endurskoða stærð sorpíláta).

Hitaveitulagnir í Reykjahverfi þarfnast endurnýjunar. Þetta liggur fyrir. Þó gerðir hafi verið samningar að einhverju leyti til að koma til móts við hærri kostnað af kaldara vatni tel ég athugasemdir Atla eiga rétt á sér.

Heimreiðum að sveitarbæjum í Norðurþingi er illa viðhaldið víða, þ.m.t. í Reykjahverfi. Þetta verkefni er hins vegar alfarið á höndum Vegagerðarinnar og engu leyti Norðurþings. Eins er það með póstþjónustu sem Atli nefnir, henni er sinnt af ríkisvaldinu með opinbera hlutafélaginu Íslandspósti, og er ekki á vegum Norðurþings. Ég deili heils hugar gagnrýni Atla á þjónustu á þessum sjálfsögðu innviðum báðum. Og rétt er að taka það fram að fulltrúar Norðurþings hafa að sjálfsögðu beitt sér í báðum þessum málum, eins og fleirum af þessu tagi sem varða þjónustu ríkisins innan Norðurþings.

Hverfisráð eru nú að taka til starfa á næstunni. Ég gengst við gagnrýni Atla hvað varðar þann tíma sem tekið hefur að koma þeim af stað. Andstaða minnihlutans í sveitarstjórn við þessari lýðræðishugmynd allri er engin afsökun, þessu hefur seinkað óþarflega mikið. En Reykhverfungum er rétt að hæla fyrir þann myndarskap að boða að eigin frumkvæði til íbúafundar og koma sér saman um fulltrúa til setu í hverfisráði. Vonandi mun þessi vettvangur nýtast íbúum Reykjahverfis vel.

Reykjahverfi hefur ekki gleymst á þessu kjörtímabili. Ég held raunar að það fáist prýðileg þjónusta sveitarfélags í Reykjahverfi fyrir bæði íbúa og atvinnulíf. Það stendur kannski frekar upp á ríkisvaldið eins og víða annars staðar í dreifbýli (heimreiðir, fjarskipti, rafmagn, snjómokstur, póstur o.fl.).

Slippurinn seldur

Í grein Stefáns Guðmundssonar er fjallað um rekstur, samskipti og samkeppni hvalaskoðunarfyrirtækjanna á Húsavík. Þar kemur einnig fram í nokkrum setningum athugasemd við að sveitarfélagið hafi selt Norðursiglingu Húsavíkurslipp.

Svar:

Ekki ætla ég að blanda mér í samskipti og viðskipti fyrirtækjanna, enda alfarið á milli tveggja einkafyrirtækja í rekstri. Húsavíkurslipp auglýsti Norðurþing hins vegar til sölu á sínum tíma og óskaði jafnframt eftir að fá útlistun á áformum bjóðenda. Augljós markmið að þarna yrðu til frambúðar jákvæð byggðarleg áhrif á heilsársvísu og byggt upp í anda skipulags. Einnig losa viðhaldsfreka og ábyrgðarþunga eign úr eignasafni sveitarfélagsins og auðvitað fá sölu- og fasteignatekjur í staðinn.

Sjá einnig: Sjaldan launar kálfurinn ofeldið

Það sýndi verkefninu einungis einn aðili áhuga, þ.e. Norðursigling. Byggða- og atvinnuleg markmið virtust nokkuð ljóslega vera jákvæð af áformum kaupanda. Það var algerlega ágreiningslaus niðurstaða í stjórnkerfi Norður­þings að selja þessa eign með þessum hætti, enda gert að loknu opnu auglýsingarferli. Það er mitt mat að meginmarkmið sölunnar hafi náðst prýðilega að hálfu sveitarfélagsins.

Nokkur orð til viðbótar til ritstjóra Skarps

Á þessu kjörtímabili hef ég lagt mig eftir því að svara þeim bréfum, greinum, tölvupóstum og spurningum sem að mér beinast. Ekki hefur slíku alltaf verið vel sinnt á síðustu kjörtímabilum og ekki hef ég séð gerðar við það viðbragðsleysi miklar athugasemdir í fjölmiðlum. Ennfremur hef ég verið til viðtals eftir óskum á skristofu Norðurþings og tekið ófá símtöl og óformleg samtöl á ýmsum tímum sólarhrings um alla mögulega og ómögulega hluti, þ.m.t. margt af því sem svarað er í þessari grein hér.

Sjá einnig: Virðingarleysi kjörinna fulltrúa í garð kjósenda!

Af ýmsum ástæðum hafa hins vegar undanfarnar vikur verið venju fremur annasamar hjá mér. Annir í vinnum, fjölskylduviðburðir og sitthvað fleira. Ég kæri mig því ekki um að vera vændur (ásamt hinum 8 sveitarstjórnarfulltrúum Norðurþings) um virðingarleysi og dónaskap í blaðafyrirsögn (sbr. innsíðu í Skarpi 27. apríl) fyrir það eitt að hafa ekki náð að senda inn svargreinar núna 2 vikum eftir páska við athugasemdum sem bárust allar í sama blaðinu rétt handan páskanna.

Óli Halldórsson, Sveitarstjórnarfulltrúi V-lista Formaður Byggðarráðs Norðurþings.

-Skarpur, 4. maí 2017

Nýjast