Sprenghlægileg fullorðinssýning

„Ef það er einhvern tímann ástæða til þess að láta kitla hláturtaugarnar allhressilega þá er það á t…
„Ef það er einhvern tímann ástæða til þess að láta kitla hláturtaugarnar allhressilega þá er það á tímum sem þessum, Fullorðin er sannkölluð himnasending í grámyglu hversdagsleikans og covid-langþreytuna," segir í leikdómi.

Ó hvað ég hef saknað þess að fara í leikhús! Eftir takmarkanir síðasta árs er fátt jafn kærkomið og að sitja í hópi fólks og hlæja saman þar til tárin renna niður kinnarnar. Nú standa yfir sýningar á verkinu Fullorðin hjá Menningarfélagi Akureyrar, áður var verkið sýnt í Samkomuhúsinu en vegna mikillar eftirspurnar eru nú aukasýningar í Hofi.

Leikarar sýningarinnar, þau Birna Pétursdóttir, Árni Beinteinn Árnason og Vilhjálmur B. Bragason eru einnig höfundar verksins þar sem þau fjalla á sprenghlægilegan hátt um grátbroslegar hliðar þess að fullorðnast, pressuna um að vera með allt á hreinu, eiga fasteign, vera með menntun, góða vinnu, eiga maka og börn - því annars er lífið misheppnað. Verkið samanstendur af stuttum leikþáttum og söngatriðum þar sem leikararnir bregða sér sífellt í ný og ný hlutverk, það má því segja að þetta sé nokkurs konar revía.

Persónunar eru algjörar erkitýpur en við könnumst flest við svona karaktera, týpuna sem lifir á vinsældum og afrekum unglingsáranna, miðaldra karlinn sem þolir ekki grænmeti og fólk sem er vegan, einhleypu konuna sem finnst hún vera að falla á tíma og buguðu húsmóðurina, svo fátt eitt sé nefnt. Samskipti foreldris og unglings og tilburðir við makaleit eru skoðuð með gleraugum náttúrulífsfræðingsins og glansmynd barneigna er rifin niður á einu bretti. Það er því óhætt að segja að verkið sé beinskeytt og engu er hlíft við hárbeittum húmornum.

Það er gríðarlega góð dýnamík hjá leikurunum þremur, allan tímann skín í gegn hvað þau skemmta sér vel og sú gleði smitar yfir í áhorfendur svo þau hafa salinn í höndum sér strax frá fyrstu mínútu. Æpandi hláturinn og viðbrögðin úr salnum voru raunar svo mikil að leikararnir áttu um tíma erfitt með að halda andliti sem kallaði fram enn meiri hlátur áhorfenda.

Birna Pétursdóttir, Árni Beinteinn Árnason og Vilhjálmur B. Bragason

í einum of fjölmörgu hlutverkum sínum í leikritinu.

Það er hrein unun að horfa á Birnu Pétursdóttur á sviði, hún fer á kostum í öllum sínum hlutverkum, hvort sem það er sjálfshjálpargúrúinn Sveinbjörg, Bogga hjá Bústólpa eða gjaldkerinn Gerða sem er grínisti í hjáverkum, áhorfendur hreinlega engjast um af hlátri.

Árni Beinteinn er sprenghlægilegur og spannar ótrúlega breidd í kostulegum hlutverkum sínum, hvort sem það er pirraður unglingur, kandídat á versta stefnumót sögunnar eða hin háaldraða söngkona Fríða Dísa. Vilhjálmur B. Bragason er óborganlegur að vanda, hvort sem hann bregður sér í líki David Attenborough, hins seinheppna bekkjarmótsgests eða spilar á píanóið af sinni alkunnu snilld.

Tónlistin í sýningunni er gríðarlega grípandi með ótrúlega fyndnum og skemmtilegum textum. Öll lögin eru frumsamin og eins og venjan er þegar kemur að tónlistarsmíði Vilhjálms eru þau einstaklega gott heilalím, ég stend mig að minnsta kosti reglulega að því að raula skírlífislagið hressa, það ku vera góð vörn gegn bæði klamydíu og börnum svo það má einnig hafa af því nokkurt gagn. Þremenningarnir eru öll prýðissöngvarar og samhliða söngnum er einnig dansað af mikilli innlifun, kóreografían er svo dásamlega og skemmtilega hallærisleg að það er ekki annað hægt en að hrífast með.

Sviðsmyndin er falleg og hæfir sýningunni vel, henni er best líst sem einstaklega glæsilegu búningsherbergi þar sem fatnaði og leikmunum er smekklega stillt upp. Lýsingin er falleg og upplýstar útlínur sviðsmyndarinnar skipta litum í takt við andrúmsloft atriða hverju sinni. Búningarnir eru líflegir og skemmtilegir og oft á tíðum skipta leikararnir um búninga og karakter á sviðinu. Eins og áður kom fram leikur þríeykið fjölmörg hlutverk, þau hlaupa á einhverjum tugum, en hver og einn karakter hefur sín sérkenni og sinn einstaka stíl. Það er eiginlega ótrúlegt miðað við fjölda persóna hversu vel tekst upp með að hafa persónurnar eins ólíkar og raun ber vitni, bæði í útliti og fasi. Þetta er fullkomin blanda persónusköpunnar, leiks og búninga.

Nú þegar hef ég séð sýninguna tvisvar sinnum og ég hefði ekkert á á móti því að sjá hana í þriðja sinn. Fullorðin er ofboðslega hressandi og fjörugt verk og ég held að flestir geti speglað sig í einhverjum af þeim fjölmörgu persónum sem þarna koma við sögu. Reglulega í sýningunni kemur upp hugsunin “ó guð, þetta geri ég, er ég virkilega svona?”, þegar flissandi sessunauturinn hnippir svo í mann er grunurinn staðfestur.

Ef það er einhvern tímann ástæða til þess að láta kitla hláturtaugarnar allhressilega þá er það á tímum sem þessum, Fullorðin er sannkölluð himnasending í grámyglu hversdagsleikans og covid-langþreytuna. Því vil ég segja við þig kæri lesandi, ef þú hefur ekki nú þegar séð sýninguna skaltu tryggja þér miða, ég get lofað þér því að gleðistuðullinn mun hækka margfalt.

-Hrönn Björgvinsdóttir

Nýjast