20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Sprellmót SHA – „ekki bara drykkjukeppni
Föstudaginn 22. september síðastliðinn urðu gestir í miðbæ Akureyrar varir við hóp fólks í hinum ýmsu búningum og í fyrstu héldu eflaust mörg að um dimmiteringuframhaldsskólanema væri að ræða.
Það var þó ekki svo heldur voru það líflegir háskólanemar sem áttu sviðsljósið og var að ræða Sprellmót Stúdentafélags Háskólans á Akureyri (SHA). Í gegnum tíðina hefur Sprellmótið verið vinsælasti viðburður SHA. . Um er að ræða einstakan viðburð í félagslífi HA sem þekkist hvergi annarsstaðar.
Sprellmótið hefst á Ráðhústorgi þar sem aðildarfélög SHA, sjö talsins, mæta, syngjandi glöð og sýna búningana sína í fyrsta skipti. Í ár mátti til dæmis sjá hljómsveitina IceGuys, bændur úr Skagafirði, karaktera úr nýjustu Barbie kvikmyndinni, Binary tölur og eldri borgara. Á Ráðhústorgi er svo keppt í pokahlaupi og pýramídakeppni. Að því loknu halda leikarnir áfram og hafa farið fram á hinum ýmsu stöðum, oftast í Sjallanum og eitt árið var mótið haldið á Melgerðismelum. Frá árinu 2018 hefur Sprellmótið þó verið haldið í húsnæði HA.
Í háskólanum halda leikarnir áfram og keppa aðildarfélögin í ýmsum fjölbreyttum þrautum og áskorunum eins og belghoppi, hjólbörukeppni og ásadansi svo fátt eitt sé nefnt. Leikarnir enda svo á glæsilegri hæfileikakeppni þar sem hvert félag sýnir atriði.
„Ég heyrði einhverstaðar út í bæ að Sprellmótið væri bara drykkjukeppni háskólastúdenta. Það er alls ekki svo. Sprellmótið er svo miklu meira, þetta er rótgróinn viðburður í félagslífi HA og einn stærsti og vinsælasti viðburðurinn okkar. Þetta er einstakur viðburður sem þekkist hvergi annars staðar og vegna stærðarinnar og þeirrar staðreyndar að í HA er persónulegt samfélag, er viðburður sem þessi mögulegur,“segir Sólveig Birna Elísabetardóttir, forseti SHA.
Hún leggur áherslu á að Sprellmótið sé fyrir öll. „Á þessum viðburði geta öll tekið þátt og á mótinu kynnast stúdentar á milli félaga og námsleiða. Sem er mikilvægt. Ég hef til dæmis eignast mjög góða vini sem ég kynntist fyrst á Sprellmóti. Það sem gerir Sprellmótið líka einstakt er sú staðreynd að dómarar eru starfsfólk háskólans og þau taka virkan þátt í mótinu. Í ár toppuðu þau sig þó og mætti í glæsilegum búningum og tóku í fyrsta skipti þátt í hæfileikakeppninni með glæsilegu atriði þar sem þau sungu til stúdenta HA.“
Áður en leikarnir hefjast fá dómarar stigablað og fást X mörg stig fyrir hverja þraut sem keppt er í og aðra þætti eins og búninga, mútur til dómara, stemmingu og frágang svo fátt eitt sé nefnt.
„Ég tók fimm sinnum þátt í Sprellmótinu sem stúdent við HA og ég hef aldrei upplifað Sprellmótið eins og það var í ár. Stúdentar HA voru algjörlega til fyrirmyndar og við í dómnefndinni erum einstaklega stolt af þessum flotta hópi. Það voru öll komin til að skemmta sér og hafa gaman þó svo að þetta sé keppni sem er að sjálfsögðu tekið mjög alvarlega. Þá er svo einstakt að sjá gleðina, kærleikann, samheldnina, metnaðinn og ekki síst virðinguna sem þau bera fyrir hvert öðru, dómurum, húsnæðinu og bara háskólanum sínum, segir Sólveig María Árnadóttir.“ ein dómara Sprellmótsins í ár að lokum.