Slippurinn á óvenjulegum slóðum

Vinna stendur yfir í Reiðhöllinni við möstur skonnortunnar Opal. Mynd/epe
Vinna stendur yfir í Reiðhöllinni við möstur skonnortunnar Opal. Mynd/epe

Blaðamaður Vikublaðsins leit við í reiðhöll Hestamannafélagsins Grana á dögunum en þar er nú tímabundið útibú fyrir slippinn á Húsavík og fjöldi manns á vegum Norðursiglingar að störfum við að útbúa möstur á skonnortuna Opal.  Einar Víðir

Einar Víðir Einarsson, hestamaður með meiru segir í samtali við Vikublaðið að Norðursigling hafi leigt hjá þeim húsnæðið þar sem þeim vantaði aðstöðu til að vinna við möstrin. Leigan sé til tveggja mánaða og sé búbót fyrir félagið.

 Bylting fyrir félagið

Einar segir að það hafi verið algjör bylting fyrir hestafólk á svæðinu að fá þetta hús á sínum tíma en það sé dýrt í rekstri og því sé brugðið á það ráð að leigja hluta hússins í skamman tíma í senn.

„Við þjálfum og temjum hesta hér inni. Þetta er náttúrlega stórt og veglegt hús sem er að okkar mati of lítið notað. Það þyrftu að vera fleiri hestmenn til að fá fulla nýtingu á húsið,“ segir Einar og bætir við að þess vegna hafi félagið tök á því að leigja það út.

„Við erum að vísu með hluta hússins í smá notkun þó við séum með það í útleigu. Við erum kannski ekki að nota það akkúrat á meðan verið er að pússa og græja heldur erum við að nota það eftir fimm á daginn,“ segir hann og ítrekar að húsið bjóði upp vöxt innan Grana enda sé vel hlúð að barna og unglingastarfi innan félagsins.

„Við erum með reiðnámskeið fyrri krakka á sumrin og húsið býður auðvitað líka upp á að hestafólk sé inni þegar er vont veður og ekki hægt að ríða út. Þá nær maður aðeins að hreyfa hrossin innandyra,“ útskýrir Einar.

Hestamannafélagið stofnaði á sínum tíma hlutafélag utan um uppbyggingu og rekstur hússins. „Norðurþing styrkti líka verkefnið myndarlega en húsið er svo rekið á ársgjöldum félagsfólks,“ segir hann og bætir við að það dugi varla til og því sé verið að grípa til þess ráðs að leigja hluta hússins til skamms tíma í senn.

Opin fyrir frekari útleigu

Þá segir Einar frá því að verið sé að reyna ná samkomulagi við Norðurþing um að leigja hluta hússins undir áhalda og tækjageymslu, s.s. snjótroðara og slíkt. „Við viljum leigja Norðuþingi endann á húsinu, undir tækjageymslu. við þurfum ekki allt húsið og erum að vinna í því að koma þessu í leigu. Það kostar tvær milljónir á ári að borga af þessu miðað við lánin sem eru eftir, þannig að það er alveg brekka að standa undir þessu. En svona eins og að leigja Norðursiglingu aðstöðu í tvo mánuði léttir verulega undir rekstrinum á húsinu,“ útskýrir Einar Víðir og bætir við að þarna gætu jafnvel einstaklingar eða fyrirtæki  séð tækifæri til að leigja sér aðstöðu til að sinna sínum verkefnum jafnvel niður í hálfan mánuð í senn. „Við myndum þá bara draga aðeins saman seglin á meðan,“ segir Einar að lokum.


Athugasemdir

Nýjast