Skrifum aldrei upp á kjarasamning sem mismunar fólki enn frekar eftir búsetu
Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar
„Aðstöðumunur á milli landsbyggðar og þéttbýlis er að verða gríðarlegur og hann er okkur sem búum fjarri höfuðborgarsvæðinu í óhag. Við erum að gera þá skýlausu kröfu að tekið verði á þessum mun, en það á ekki síst við um verð á raforku og eldsneyti, vöruverð, flutningskostnað og aðgengi að opinberri þjónustu, m.a. heilbrigðisþjónustu og framhaldsnámi,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar í Þingeyjarsýslu. Þar vísar hann í yfirstandandi viðræður milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingarinnar.
Hann segir að einhver þurfi að grípa boltann á lofti og tala máli landsbyggðarfólks við gerð kjarasamninga, minna á að fólk búi víða um land og að þjóðarsátt megi ekki bara virka í eina átt, inn á höfuðborgarsvæðið. Framsýn muni tala máli íbúa landsbyggðar og aldrei skrifa upp á kjarasamning sem mismuni fólki enn frekar en orðið er eftir búsetu. „Það verður að horfa til alls landsins við gerð kjarasamninga og að skoða þennan mikla mun sem fólk býr við eftir búsetu,“ segir hann og bendir m.a. á þá sem búi á köldu svæðunum á Norðausturhorni landsins.
Margir hreinlega að bugast
„Þar fá menn verulega háa rafmagnsreikninga vegna húshitunar, samgöngukostaður hefur rokið upp úr öllu valdi eftir því sem eldsneyti hefur hækkað í verði, vörur kosta meira þar og aðgengi að heilbrigðisþjónustu versnar. Allt þarf að sækja um langan veg með sífellt meiri kostnaði. Ég heyri það að margir eru hreinlega að bugast á þessu ástandi. Það búa ekki allir við það sjálfsagða öryggi að hafa læknisþjónustu í heimabyggð eða aðgengi að hátæknisjúkrahúsum, en því miður er það svo að almennt launafólk á mjög erfitt með að tákast á við þessa kostnaðarsömu liði. Því miður eru fjölmörg dæmi um að fjölskyldur hafi þurft að flytja búferlum á höfuðborgarsvæði þar sem þær hafa verið að sligast undan gríðarlegum útgjöldum sem fylgja því að búa á landsbyggðinni,“ segir Aðalsteinn Árni