Skortur á leiguhúsnæði í Grímsey
„Skortur er á leiguhúsnæði í Grímsey og þau hús sem hafa verið seld í eyjunni undanfarið hafa verið keypt sem orlofshús,“ segir í bókun sem Ásrún Ýr Gestsdóttir V -lista lagði fram á fundi bæjarráðs nýverið. Lagt var fram minnisblað um félagslegt leiguhúsnæði í eynni sem lagt er til að verði rekið á öðrum forsendum eða selt út úr kerfinu.
Fram kemur í bókun Ásrúnar að samkvæmt hverfisráði Grímseyjar sé erfitt að finna húsnæði fyrir starfsfólk í fiskvinnslu og ferðaþjónustu yfir sumarið. Áhugi sé fyrir hendi hjá eyjaskeggjum og eigendum fyrirtækja að hafa aðgengi að leiguhúsnæði fyrir sitt sumarstarfsfólk, en þau hafi ekki endilega bolmagn til að kaupa húsnæðið.
Ættu að reyna aðrar leiðir
Grímsey lauk nýlega þátttöku í verkefninu Brothættar byggðir og segir í lokaskýrslu að Akureyrarbær muni auk þess að sinna lögbundnum skyldum í Grímsey, reyna eftir bestu getu að vinna að hagsmunum samfélagsins og uppbyggingu þess. Hverfisráð Grímseyjar hefur talið upp nokkrar hugmyndir um hvernig hægt væri að reyna að ná betri nýtingu á húsnæðinu, „og ætti Akureyrarbær í samvinnu við hverfisráð að reyna þær leiðir áður en ákvörðun er tekin um sölu á íbúðum Akureyrarbæjar í Grímsey,“ segir í bókun Ásrúnar.