Skortur á hentugu leiguhúsnæði fyrir eldri borgara á Akureyri

Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara
Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara

Augljós skortur er á á leiguhúsnæði sem hentar eldri borgurum á Akureyri. Í húsnæðiskönnun sem Félag eldri borgara á Akureyri gerði nýverið kemur fram að margir horfa til þess að minnka við sig húsnæði á næstu þremur árum og vilja sumir gjarnan flytja í leiguíbúð í eigu óhagnaðardrifins leigufélags, í búseturéttar íbúð eða þjónustuíbúð fyrir 60 ára og eldri. Um 35% félagsmanna svöruðu könnuninni.

„Því miður er ekki um auðugan garð að gresja þegar kemur að slíkum íbúðum fyrir þennan aldurshóp,“ segir Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara.

Fram kom að stór hluti félagsmanna, 89% býr í eigin húsnæði. Tæplega fjórðungur, 23% svaraði því til að líklegt væri að þeir muni skipta um húsnæði á næstu þremur árum og segir Karl að þar sé um að ræða um 600 manns. „Það þýðir að það vantar um 300 íbúðir sem henta þessum aldurshóp, það er ljóst að mikil þörf er á að byggja nýjar íbúðir fyrir þetta fólk,“ segir hann.

Margir vilja á Tjaldsvæðareitinn

Fram kom í könnuninni að flestir vilja búa í frá 71  til 120 fermetrar stórum íbúðum með tveimur svefnherbergjum. Langflestir vilja búa á Brekkunni og 90 manns sem tóku þátt vildu búa á svonefndum „Tjaldsvæðareit“. Þá nefndu 28 að þeir vildu gjarnan búa í íbúðarkjarna í Þursaholti. Yfir helmingur þeirra sem svöruðu könnuninni sagði líklegt að þeir vildu búa í svokölluðum „Lífsgæðakjarna“ fyrir eldra fólk. Starfshópur vinnur að því máli en slíkir kjarnar er heiti yfir nýja nálgun í húsnæði fyrir eldra fólk þar sem áhersla er á fjölbreytt búsetuform, eignar- og leiguíbúðir og jafnvel hjúkrunarrými sem raðað er upp í aðlaðandi umhverfi með aðgengi að margs konar þjónustu.

 

Tjaldstæðisreiturinn tillaga í vinnslu    Mynd  Nordic

Nýjast