Skógræktarfélag Eyfirðinga stendur í umfangsmikilli grisjun

Maríus rekur skógarþjónustu í  Lettlandi en hefur verið hér á landi undanfarna mánuði, fyrst á Austu…
Maríus rekur skógarþjónustu í Lettlandi en hefur verið hér á landi undanfarna mánuði, fyrst á Austurlandi og síðustu vikur í Vaglaskógi, á Hálsi og Kjarnaskógi. Myndir Ingólfur Jóhannsson

„Þetta er verkefni sem verður að vinna og við erum afskaplega ánægð með að fá þessa vönduðu fagmenn til verksins,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga. Menn frá Lettlandi með skógarhöggsvélar sérhannaðar til grisjunar hafa verið að störfum í reitum félagsins undanfarið. Þeir verða um það bil einn mánuð við störf nú í haust og vonast eftir að þeir taki upp þráðinn á næsta ári enda ærið verkefni fyrirliggjandi.

Ingólfur segir að Maríus  sem rekur skógarþjónustu í Lettlandi sé eigandi tækjanna en skógarafurða fyrirtækið Tandrabretti á Eskifirði hafði milligöngu um komu Lettanna til landsins.  Með honum í för er Kasper sem starfar hjá fyrirtækinu. „Þeir byrjuð fyrir austan, voru í Hallormsstaðaskógi og víðar og komu síðan við í Vaglaskógi á leið í Eyjafjörðinn,“ segir Ingólfur, en grisjunarliðið hófst handa í skógarreit SE að Hálsi í Eyjafjarðarsveit þar sem mikil þörf var fyrir grisjun. Þá var farið í Kjarnaskóg og Naustaborgir.

„Þetta eru annars vegar vélar sem saga trén og afkvistar þau en hins vegar hefur Maríus yfir að ráða vélum sem safna saman trjábolum sem síðan er staflað saman við nærliggjandi stíg eða slóða. Greinar og toppar eru skildar eftir í skógarbotninum hvar þeir nýtast lífríki skógarins, en trjábolir eru flokkaðir og verða nýttir á ýmsan máta, til kurlunar, eldiviðarframleiðslu og framleiðslu borðviðar,“ segir Ingólfur.

Margvíslegar afurðir skóganna

Afurðir skóganna segir hann margvíslegar, „við framleiðum m.a. lýðheilsu, verðmætt gjaldeyrissparandi timbur, stuðlum að landbótum, landgræðslu og bættum kolefnisbúskap jarðar svo eitthvað sé nefnt,“ bætir hann við og að grisjun skóga sé eilífðarverkefni á vegum skógræktarfélaga en því verkefni þurfi að sinna. „Það er afskaplega mikilvægt til að tryggja vöxt og viðgang trjánna sem okkur ber að skila skikkanlega til komandi kynslóða. Grisjun skilar því líka að fleiri sveppir vaxa á svæðinu og einnig ber þar sem það á við þannig að það ávinningur af því að standa vel að grisjun skóga er mikill.“

Gamla góða keðjusagarfólki áfram ómissandi

Ingólfur segir skógarhöggsvélar og notkun þeirra fremur nýlegt verkfæri í skógrækt á Íslandi, en mikill og góður árangur náist á skemmri tíma en þegar keðjusagir eru notaðar til verksins. „Gamla góða keðjusagarfólkið okkar verður þó engu að síður áfram ómissandi við að hirða ört vaxandi trjálendi,“ segir hann.

Gert er ráð fyrir að nú í september náist að fara yfir 8 til 10 hektara svæði á vegum Skógræktarfélags Eyfirðinga og er sjónum beint að reitnum á Hálsi, Kjarnaskógi og Naustaborgum að þessu sinni, en fleiri svæði bíða þess að farið verði um þau með vélarnar og vonast Ingólfur til þess að hægt verði að semja við Maríus og félaga til að koma til Íslands á ný næsta ár og halda verkinu áfram.

 

Nýjast