Akureyri - Heildarálagning fasteignagjalda er 6.444 milljónir króna
![Heildarálagning fasteignagjalda ársins á Akureyri fyrir árið 2025 er 6.444 milljónir króna Mynd …](/static/news/lg/fasteingagjold-ak-maria-helena.jpg)
Heildarálagning fasteignagjalda ársins á Akureyri fyrir árið 2025 er 6.444 milljónir króna, þar af er fasteignaskattur 3.817 milljónir, lóðarleiga er 840 milljónir, vatnsgjald 479 milljónir króna, fráveitugjald 768 milljónir og sorphirðugjald 540 milljónir króna. Þetta kemur fram á vefsíðu Akureyrarbæjar.
Sorphirðugjald er lagt á 9.069 heimili sem er fjölgun um 313 heimili frá fyrra ári. Á árinu 2024 nam álagning fasteignagjalda samtals 5.857 milljónum króna.
Álagningu fasteignagjalda er lokið hjá Akureyrarbæ. Álagning dreifist líkt og áður á 8 gjalddaga frá 3. febrúar til 3. september. Álagningarprósenta fasteignaskatts fyrir íbúðarhúsnæði er óbreytt frá fyrra ári og er 0,31% af fasteignamati. Álagningarprósenta af öðru húsnæði er óbreytt 1,63% og 1,32% af fasteignamati skóla, sjúkrahúsa, bókasafna og íþróttahúsa.
873 lífeyrisþegar fá afslátt
Bæjarstjórn samþykkti breytingu á reglum um afslátt af fasteignaskatti hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum og hækkaði tekjumörk. Nú fá 873 elli- og örorkulífeyrisþegar afslátt og nemur heildarfjárhæð afsláttar 83 milljónum króna eða 95 þúsund krónum að meðaltali.
Afsláttur ræðst af tekjum og getur hæstur orðið 149.500 krónur. 150 fasteignaeigendur njóta hámarksafsláttar og 344 fasteignaeigendur njóta fulls afsláttar af fasteignasköttum sínum. Árið áður nutu 962 afsláttar af fasteignaskatti og nam heildarfjárhæðin 90 milljónum króna.