Byggðaráð Norðurþings samþykkir bókun um stöðu sjúkraflugs vegna lokana á flugbrautum á Reykjavíkurflugvelli

Reykjavíkurflugvöllur    Mynd Njáll
Reykjavíkurflugvöllur Mynd Njáll

Byggðarráð Norðurþings samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi bókun í ljósi stöðu þeirrar sem uppi er vegna lokana á flugbrautum á Reykjavikurflugvelli.

,,Byggðarráð Norðurþings harmar að komið hafi til lokana á flugbrautum 13-31 á Reykjavíkurflugvelli. Með því er öryggi fólks á landsbyggðunum og þjónustu við það skert enn frekar. Ráðið tekur undir sjónarmið Miðstöðvar sjúkraflugs á Íslandi um að óheft aðgengi að flugvellinum er lífsnauðsynlegt fyrir sjúkraflug og óásættanlegt að öryggi og aðgengi landsbyggðanna að innanlandsflugvellinum í Reykjavík sé stefnt í voða vegna tregðu Reykjavíkurborgar við að fækka trjám til að tryggja aðflug. Byggðarráð skorar á Reykjavíkurborg að hraða aðgerðum við fellingu trjáa. Reykjavíkurborg er höfuðborg allra íbúa landsins og þarf að bregðast við í samræmi við það.

Byggðarráð skorar á Samgöngustofu að fullnýta allar lagaheimildir sínar til að tryggja opnun á flugbrautunum, þar með talið 150. gr. loftferðarlaga þar sem segir eftirfarandi:

"Telji Samgöngustofa verulega hættu stafa af hindrun eða öðru því sem 2. og 3. mgr taka til er henni heimilt að bregðast við án tafar og atbeina lögreglu ef þörf krefur".

Byggðarráð gerir þá kröfu á ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og ríkisstjórn Íslands að gengið verði tafarlaust í málið til að tryggja þennan þátt öryggis íbúa og gesta landsbyggðanna."

 

Nýjast