Skoða allar leiðir til að nýta rými betur

T0lvugerð afstöðumynd með hugsanlegu fyrirkomulagi nýrra stúdentagarða
T0lvugerð afstöðumynd með hugsanlegu fyrirkomulagi nýrra stúdentagarða

„Þetta er ein leið sem Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyrar er að skoða og er enn sem komið er á byrjunarstigi,“ segir Jóhannes Baldur Guðmundsson framkvæmdastjóri FÉSTA,  sem sent hefur inn erindi til skipulagsráðs þar sem spurst er fyrir um möguleika á að búa til nýjan byggingareit fyrir nýtt hús á austurhlíð lóðarinnar númer 46 við Skarðshlíð.  

Á lóðinni við Skarðshlíð 46 er þriggja hæða hús með sex íbúðum og 22 einstaklingsherbergjum. Félagsstofnun stúdenta rekur þar stúdentagarða, þá fyrstu sem reistir voru á Akureyri. Í tillögunni er gert ráð fyrir að koma nýju tveggja hæða húsi fyrir á lóðinni með á bilinu 14 til 16 einstaklingsherbergjum.

Jóhannes segir FÉSTA skoða ýmis mál og útfærslur er snúa að því að leysa umfram eftirspurn eftir minna húsnæði frá stúdentum við HA. Að byggja á reitnum við Skarðshlíð sé ein leiðanna.

Verið að hanna nýja stúdentagarða við Dalsbraut

Til stendur að reisa nýja stúdentagarða við Dalsbraut, í námunda við háskólann. Hönnunarfasinn með sigurvegurum úr hönnunarsamkeppni, Nordic Office of Architecture er hafinn og tekur sú vinna að líkindum hátt í eitt ár.

„Við erum einnig með í vinnslu að rýna allar okkar núverandi byggingar, með það sjónarmið að skoða hvort við getum nýtt rými betur eða öðruvísi,“ segir Jóhannes en sú vinna er unnin í samráði við  skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar. Mikil eftirspurn er eftir einstaklings herbergjum og 2ja herbergja íbúðum og segir hann að enn frekari eftirspurn eftir slíku húsnæði hafi orðið nú í ár.

Sala eigna er eitt af því sem til skoðunar er og segir hann að ef af yrði þá myndi eignir með stærri íbúðum verða fyrir valinu og þá yrðu þær boðnar til sölu á svipuðum tíma og FÉSTA fær nýjar byggingar við Dalsbraut í notkun.


Athugasemdir

Nýjast