Skipulagstillaga um byggð í Vaðlaheiði
-Eftirspurn eftir lóðum í Vaðlaheiði hefur aukist og þyrpingar þegar risið
Síðustu ár hefur verið mikil eftirspurn eftir lóðum fyrir íbúðarhús og frístundahús í Vaðlaheiði og hafa risið þyrpingar á þegar skilgreindum landnotkunarreitum. Sveitarfélögin sem í hlut eiga hafa fundið fyrir greinilegum áhuga á áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu og því var ákveðið að ráðast í gerð heildstæðrar skipulagsáætlunar vegna uppbyggingarinnar í stað þess að taka fyrir eina og eina spildu í einu í takt við framkvæmdaáform hverju sinni.
Svæðið sem um ræðir nær frá norðurmörkum Geldingsár í Svalbarðsstrandarhreppi og að suðurmörkum Leifsstaða í Eyjafjarðarsveit og er alls um 1900 ha að flatarmáli. Svæðið er í eigu einkaaðila og er uppbygging á svæðinu á þeirra vegum.
Heildstæð stefna í þróun byggðar í Vaðlaheiði
Hjá embætti skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar fengust þær upplýsingar að skipulagsáætlun af þessu tagi nefnist rammahluti aðalskipulags, en það er sá hluti aðalskipulags þar sem útfærð eru ákveðin afmörkuð svæði sveitarfélagsins með það að markmiði að ákvarða nánar landnotkun, svo sem um meginþætti þjónustukerfa og að afmarka byggingarsvæði eða áfanga deiliskipulagsáætlana. Þessi skipulagsáætlun mun svo liggja til grundvallar deiliskipulögum sem í kjölfarið verða unnin fyrir spildur innan svæðisins. Með þessu móti er leitast við að móta heildstæða stefnu um þróun byggðar í Vaðlaheiði til framtíðar þar sem m.a. verður stuðlað að hagkvæmri þróun íbúðarbyggðar í dreifbýli og gætt að umhverfissjónarmiðum. Að þessu leyti er horft á skipulagssvæðið sem eina heild þrátt fyrir að um tvö sveitarfélög sé að ræða.
Ekki reiknað með fjölbýlishúsum, verslunar- eða þjónustulóðum
Ekki eru skilgreindar lóðir á þessu stigi máls heldur eru afmarkaðir landnotkunarreitir undir íbúðarsvæði og frístundasvæði sem svo er hægt að deiliskipuleggja og er miðað við að þéttleiki byggðar verði að hámarki 3 íbúðarhús á hektara á íbúðarsvæðum en 2 frístundahús á hektara á frístundasvæðum. Núgildandi skipulagsáætlanir gera ráð fyrir alls u.þ.b. 320 íbúðarhúsum og u.þ.b. 190 frístundahúsum innan marka skipulagssvæðisins en miðað við hámarks nýtingu á íbúðar- og frístundasvæðum í tillögunni sem nú er í kynningu gætu rúmast alls u.þ.b. 650 íbúðarhús og u.þ.b. 240 frístundahús innan svæðisins. Ekki er reiknað með fjölbýlishúsum á þessum svæðum og skipulagsáætlunin gerir ekki ráð fyrir verslunar- eða þjónustulóðum umfram þær sem þegar eru til staðar í gildandi skipulagsáætlunum.
Kynningarfundur og búist við talsverðum áhuga
Kynning á skipulagstillögunni stendur til 9. febrúar og einnig mun fara fram opinn kynningarfundur vegna verkefnisins á sveitarskrifstofu Eyjafjarðarsveitar fimmtudaginn 1. febrúar næstkomandi klukkan 20. Á þessu tímabili gefst færi á að koma ábendingum eða athugasemdum vegna tillögunnar á framfæri við sveitarfélögin. Verkefnið varðar ýmsa hagsmuni og búast sveitarfélögin við að finna fyrir talsverðum áhuga frá almenningi, hagsmunaaðilum á svæðinu og umsagnaraðilum meðan á kynningu stendur.
„Samkvæmt okkar bestu upplýsingum er þetta í fyrsta sinn sem unninn er rammahluti aðalskipulags í samstarfi tveggja sveitarfélaga og verður áhugavert að sjá hvernig það fyrirkomulag gengur,“ segir í svari frá embættinu.