Skemmdarverk unnin á leiksvæði leikskólabarna

Skemmdarverk hafa verið unnin á Holti, útikennslusvæði leikskólans Grænuvalla á Húsavík. Mynd/epe.
Skemmdarverk hafa verið unnin á Holti, útikennslusvæði leikskólans Grænuvalla á Húsavík. Mynd/epe.

Hún var sorgleg aðkoman í Holti, útikennslusvæði leikskólabarna á Húsavík á dögunum. Eldhús eða gullabú eins það er kallað sem foreldrar barna sem útskrifuðust í vor settu upp og gáfu leikskólanum er stór skemmt. Gullabúið var tekið í notkun í byrjun þessa mánaðar og hefur því ekki fengið að vera í friði í heilan mánuð. Málið hefur verið kært til lögreglu en að sögn nágranna er algengt að þeir verði varir við partýstand á þessum slóðum á kvöldin og um helgar. Börnin eru miður sín.

 Ruth Ragnarsdóttir er leikskólakennari á Grænuvöllum og foreldri leikskólabarns. Hún segir í samtali við Vikublaðið  skemmdarverkin sem unnin hafa verið á svæðinu vera mikið reiðarsag en eins sorglegt og það hljómar, þá komi það ekki endilega á óvart enda sé algengt að hópar fólks haldi þarna til í skjóli myrkurs og djammi fram í roða.Ruth

„Ég hef reyndar ekki farið á staðin sjálf en við erum með Facebookhóp við foreldrarnir og þar var búið að setja inn mikið af myndum af aðkomunni. Þar mátti glöggt sjá að búið var að brjóta allt og bramla, taka vaskana og brjóta borð og stóla. Það voru bjórdósir í kring þannig að það hefur örugglega verið eitthvað partýstand þarna,“ útskýrir Ruth.

Eins og greint var frá í Vikublaðinu fyrr í mánuðinum þá eru mannvirki þarna í rjóðrinu í Holti sem hafa verið útbúin sérstaklega fyrir Grænuvelli og sé þess vegna eign leiksskólans, gullabúið þar með talið, þó svæðið sé vissulega opið almenningi.

SJÁ EINNIG: AFHENTU GULLABÚ VIÐ ÚTSKRIFT BARNA SINNA

„Það er mjög algengt að fólk sé þarna að djamma og hvað eina. Það er náttúrlega ekkert nema sjálfsagt að fólk nýti þetta utan leiksskóla með börnum sínum eða eitthvað álíka en það er sorglegt að þetta virðist breytast í djammstað eftir myrkur um helgar,“ segir Ruth.

Engin staðin að verki

Skemmdarverk

Aðspurð hverjir hún telji að hafi verið að verki segist Ruth ekki vita það. „Manni hefur oft dottið það í hug að þarna haldi til unglingar enda sé ekki mikið um samverustaði fyrri þann aldurshóp á Húsavík, en maður veit í raun ekkert um það,“ segir hún og bætir við að hún telji að skemmdarverkin hafi verið unnin á föstudagskvöld eða aðfararnótt laugardags.

„Á fimmtudag var þetta í lagi en ég man ekki hvort það var á föstudag eða laugardag sem þetta kom í ljós,“ segir Ruth uppgefin og bætir við að gullabúið hafi tekið nokkrar vikur í uppsetningu og mikil vinna lögð í það.

Mikil vinna í súginn

„Við foreldrarnir hittumst nokkrum sinnum til að setja þetta upp. Þetta var alveg töluverð vinna og meira segja áður en við vorum búin að festa allt saman þá var einu sinni búið að taka vaskana úr innréttingunni og kasta þeim í ána. Þá brugðum við á það ráð að líma þá alveg fasta en það hefur greinilega ekki dugað til,“ segir Ruth forviða.

Tveir af þremur vöskum voru horfnir þegar foreldrar komu á vettvang en þegar blaðamaður kannaði vettvang var búið að skila öðrum þeirra. „Við vorum einmitt að vona að ef það yrði umræða um þetta að fólk sæi að sér. Annars væri varla ástæða til að byggja þetta upp aftur ef þetta heldur áfram að koma fyrir,“ segir Ruth og blaðamaður tekur undir að það sé fátt sorglegra en ef staðan er þannig að leiksvæði barnanna í bænum þurfi að vera búin eftirlitsmyndavélum til að fá að vera í friði fyrir skemmdarvörgum.

„Maður fattar ekki alveg hugsunina á bak við svona, að vera skemma eitthvað sem er svo greinilega leiksvæði fyrir börn. Maður trúir því varla að þarna hafi verið fullorðnir einstaklingar að verki en það hefur greinilega verið haft áfengi um hönd því talsvert var af tómum bjórdósum í kring," segir hún.

Kemur því miður ekki á óvart

Meiri skemmdarverk

Ruth segir jafnframt  að Holt hafi á undanförnum árum verið mikið notað til útkennslu fyrir nemendur Grænuvalla og það sé ekkert nýtt að aðkoman sé ekki eins og best væri á kosið.

„Það er alveg þannig að þegar við höfum verið að fara með barnahópa í Holt, þá fer einn stafsmaður snemma af stað og tekur svæðið út áður en við komum með börnin. Það hefur oft verið tilfellið að þar þurfi að hreinsa til áður en svæðið geti talist hæft fyrir börnin. Það hefur þurft að tína upp bjórdósir, nikótínpúða, jafnvel smokka og hasspípur,“ segir Ruth og á enn erfitt með að trúa því að þetta hafi komið fyrir eftir alla vinnuna sem búið var að leggja á sig við að koma gullabúinu upp.

„Við festum þetta vel niður og vorum virkilega að vonast til að þetta fengi að vera í friði, en þetta er ekki búið að fá að standa í mánuð og þetta er staðan í dag. Það eru ekki einu sinn öll börnin á Grænuvölllum búin að fá að njóta nýja eldhússins. Við fórum með nokkra hópa fyrir lokun en svo er búið að vera sumarfrí," útskýrir Ruth.

Augljós ásetningur

Helga Jónsdóttir aðstoðar leikskólastjóri Grænuvalla var í öngum sínum þegar blaðamaður heyrði í henni en hún staðfesti að öllu leyti frásögn Ruthar og bætti við að þessi slæma umgengni sé ekki aðeins bundin við Holt. Hún frétti af málinu á laugardag og fór strax á vettvang til að taka myndir og hafði í kjölfarið samband við lögreglu sem hefur málið til rannsóknar.Helga

Hún segir jafnframt að ásetningurinn til að valda skemmdum fari ekkert á milli mála. „Við erum ekki að tala um að einhver hafi sest ofan á þetta og brotið fyrir slysni. Það er talsvert lagt á sig til að brjóta þetta. Það voru einhverjar bjórdósir þarna og mér finnst líklegt að þetta hafi gerst á föstudagskvöld,“ segir Helga og bætir við að börnin séu miður sín yfir þessu.

Mikil sorg hjá börnunum

„Ég get alveg sagt þér það að ég er með einn fimm ára hérna við hliðina á mér sem grét sig í svefn yfir þessu. Þetta hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir börnin.“

Helga tekur undir með Ruth um að aðkoman í Holti sé ekki alltaf geðsleg eftir partýstand en það sé víðar á svæðum sem leikskólinn hafi til umráða. „Þetta er því miður allt of algengt og eins bara á leikskólalóðinni, við erum oft að tína upp nikótínpúða út um allt og stundum nálar og ýmislegt. Um daginn fann ég rakvélarblað, ég hef ekki einu sinni ímyndunarafl í að geta mér til um til hvers það er notað,“ útskýrir Helga og bætir við að lítið sé vitað um hvaða hópar séu þarna að verki eða á hvaða aldri en finnst líklegt að þarna sé ekki endilega um að ræða krakka undir tvítugu.

„Við höfum eiginlega aldrei náð að standa neinn að verki. Við erum líka með svæði upp í skógrækt fyrir ofan Skálabrekku þar sem við erum með nestisaðstöðu og smá afdrep. Þar er sama uppi á teningnum þar er verulega illa gegnið um. Vinflöskur og svona dót hér og þar. Þetta er er bara hrikalega sorglegt og leiksskólabörnin eru miður sín,“ segir Helga að lokum.

Enn meiri skemmdarverk

 

Nýjast