20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
„Skapar tækifæri til að nýta innviði í ferðaþjónustu lengur“
Ný flugleið EasyJet frá London til Akureyrar og tækifærin sem henni fylgja voru umræðuefni fundar Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra í London í síðustu viku með fulltrúum EasyJet, Markaðsstofu Norðurlands, Íslandsstofu og sendiherra Íslands í Bretlandi. Flug EasyJet til Akureyrar hófst síðastliðið haust og mun standa fram á veturinn en flogið er tvisvar í viku. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Samhliða fundinum fór fram fjölmennur kynningarviðburður í sendiráði Íslands fyrir breska ferðaheildsala og fjölmiðla um áfangastaðinn Norðurland þar sem þjónusta og afþreying á svæðinu var kynnt.
Bretlandsmarkaður er mikilvægur markaður fyrir íslenska ferðaþjónustu en á tímabilinu ágúst 2022 til júlí 2023 heimsóttu rúmlega 268.000 breskir ferðamenn Ísland, en meðaldvalarlengd þeirra var 5, 1 nótt.
Ráðherra hvatti meðal annars fulltrúa EasyJet til að halda áfram þróun sinni á flugi til landsbyggðarinnar, en bæði flugvellirnir á Akureyri og Egilsstöðum eru skilgreindir alþjóðaflugvellir. Þannig hefur EasyJet hefur nú þegar tilkynnt um áframhald á flugi flugleiðinni London - Akureyri fyrir veturinn 2025.
Fyrir helgi undirritaði menningar- og viðskiptaráðherra samning um áframhaldandi stuðning við uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni. Að auki ákvað ráðherra að veita Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú 20 m.kr. framlag hvorri til þess að kynna og undirbúa Norður- og Austurland undir komu væntanlegra ferðamanna með beinu millilandaflugi.
„Beint millilandaflug til Akureyrar breytir miklu fyrir ferðaþjónustu á Norðurlandi, sér í lagi utan háannar. Það skapar tækifæri til að nýta innviði í ferðaþjónustu lengur og betur, og er liður að því að efla ferðaþjónustuna sem heilsársatvinnugrein á svæðinu. Við munum halda áfram að styðja við uppbyggingu millilandaflugs til landsbyggðarinnar, en það er skilvirkasta leiðin til að dreifa ferðamönnum um landið,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Fyrrnefndir fundir voru hluti af dagskrá ráðherra í London og voru skipulagðir í samstarfi við Markaðsstofu Norðurlands, Íslandsstofu og sendiráð Íslands í London.