Matartækni hefur verið kennd við VMA í 18 ár

Vonir standa til að nýr námshópur í matartækni geti hafið nám við Verkmenntaskólann á Akureyri næsta haust. VMA hefur lengi menntað og útskrifað matartækna, eða í 18 ára og áætlað er að á bilinu 80 til 100 matartæknar hafi verið útskrifaðir á tímabilinu.
VMA hefur ekki einungis sinnt nemendum frá upptökusvæði skólans, þeir hafa komið af öllu landinu að því er fram kemur á vef skólans. Nú stunda 12 nemendur nám í matartækni og er þessi vorönn, 2025 sú þriðja og síðasta í námi þeirra.
Námið er ætlað fólki sem starfar við matvæli - hvort sem er í mötuneytum eða á veitingastöðum. Það er lotunám, sem þýðir að kennt er í fimm staðlotum á hverri önn og á milli lotanna vinna nemendur verkefni af ýmsum toga.
Marína Sigurgeirsdóttir, kennari við matvælabraut VMA, hefur yfirumsjón með matartæknanáminu í VMA og það hefur hún gert síðan 2007. Nemendahópurinn sem hún kennir núna er sá áttundi í röðinni frá 2007. Nám í matartækni er einungis í boði í annars vegar VMA og hins vegar í Menntaskólanum í Kópavogi – MK.