Dagskráin 19. febrúar - 26. febrúar Tbl 7
Kvenfélagið Hlín í Grýtubakkahreppi Gaf sérhannað tæki til að losa aðskotahluti úr öndunarvegi

Kvenfélagið Hlín í Grýtubakkahreppi hefur afhent leikskólanum Krummafæti og Kontornum hjálparbúnaðinni LiveVac, en um er að ræða sérhannað lækningatæki til að að losa aðskotahluti úr öndunarvegi hjá bæði fullorðnum og börnum.
Markmið félagsins er að styðja við og styrkja starfsemi með það að leiðarljósi að íbúar hreppsins njóti góðs af á einn veg eða annan. Undanfarin ár hefur kvenfélagið því keypt inn búnað og styrkt hin ýmsu málefni. Má þar nefna hjartastuðtæki fyrir Magna, búnað í sjúkraþjálfun, búnað fyrir Kristnes, sundleikföng fyrir sundlaugina, þroskaleikföng fyrir leikskólann, flutningsdýnu fyrir björgunarsveitina, rápmottu fyrir Grenilund svo eitthvað sé nefnt.Þar að auki hefur kvenfélagið staðið fyrir söfnunum þar sem fjármunir hafa runnið til einstaklinga og fjölskyldna sem hafa gengið í gegnum erfiðleika og/eða veikindi.
Rúmlega 500 vinnustundir
Rúmlega fjörtíu öflugar konur keyra kvenfélagið áfram með sjálfboðaliðavinnu. Þær halda utan um allar fjáraflanir og samkomur, skipuleggja og leggja ómældan tíma og vinnu í hin ýmsu verkefni. Til gamans má geta þess að áætlaðar vinnustundir sem konurnar lögðu í verkefni ársins 2024 voru rúmlega 500 klukkustundir og er þá frekar vanáætlað en of.
Kvenfélagskonur í Hlíf nefna í tilkynningu á vef sveitarfélagsins að það séu fyrst og fremst íbúar í Grýtubakkahreppi og þátttaka þeirra í fjáröflunum og samkomum, sem gera þeim kleift að ná árangri, safna fé og deila út til samfélagsins.