Einstaklingar á landsbyggðinni sem þurfa að ferðast til Reykjavíkur til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eiga rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar gegn framvísun staðfestingar á læknisheimsókn. Þrátt fyrir að þetta úrræði sé mikilvægt, hefur komið í ljós að það er ekki alltaf sanngjarnt eða réttlátt. Tilvik hafa komið upp þar sem einstaklingar hafa ferðast langar vegalengdir í góðri trú, en læknistímar þeirra hafa verið afbókaðir með skömmum fyrirvara af hálfu heilbrigðisstofnana. Í slíkum tilfellum eru sjúklingar ekki einungis sviptir nauðsynlegri læknisþjónustu, heldur einnig réttinum til endurgreiðslu á ferðakostnaði.
Kostnaður vegna þjónustu sem ekki er veitt
Slíkt fyrirkomulag er ekki aðeins ósanngjarnt heldur veldur það fjárhagslegum kostnaði fyrir viðkomandi einstaklinga. Ferðakostnaður, gisting og annar tilfallandi kostnaður getur verið umtalsverður, sérstaklega fyrir þá sem eru tekjulágir eða búa á afskekktum svæðum. Þegar einstaklingur hefur þegar lagt í för og læknistíminn fellur niður af ástæðum sem hann sjálfur ræður ekki við, er ekki réttlátt að hann beri kostnaðinn.
Til að tryggja sanngjarnara og réttlátara kerfi er nauðsynlegt að sjúklingar fái ferðakostnað endurgreiddan jafnvel þótt læknistími þeirra falli niður af hálfu heilbrigðisstofnana. Með því væri dregið úr fjárhagslegum áhyggjum sjúklinga og tryggt að landsbyggðarfólk hafi raunverulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á sömu eða amk. svipuðum forsendum og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er réttlætismál að sjúklingar sem þurfa að ferðast langar vegalengdir til að fá nauðsynlega meðferð njóti sanngjarnari meðferðar í endurgreiðslukerfinu.
Undirrituð vinnur að málínu
Undirrituð vinnur nú að framlagningu máls á Alþingi þar sem lagðar verða til breytingar á núverandi reglum um ferðakostnað sjúklinga. Markmiðið er að tryggja að þeir sem lenda í þeirri stöðu að læknistímar þeirra falli niður af ástæðum sem þeir ráða ekki við, eigi samt rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar.
Þessi breyting yrði mikilvægt skref í átt að raunverulegu jafnrétti innan heilbrigðiskerfisins og myndi stuðla að því að allir landsmenn njóti sama aðgengis að nauðsynlegri læknisþjónustu, óháð búsetu þeirra. Jafnrétti til heilbrigðisþjónustu má ekki einungis vera markmið á pappír – það verður að endurspeglast í framkvæmd kerfisins.
Höfundur er formaður þingflokks Framsóknarflokksins.