Dagskráin 19. febrúar - 26. febrúar Tbl 7
Viðvaranir sendar út sólarhring eftir að svifryk fór tvöfalt yfir heilsuverndarmörk

Heilbrigðisnefnd Eyjafjarðar leggur áherslu á að takmörkun svifryks er mikilvægt lýðheilsumál sem nauðsynlegt er að taka föstum tökum og harmar hve takmarkaður árangur hefur náðst í því máli á Akureyri. Nefndin ræddi svifryk á Akureyri á fundi nýverið og var m.a. bent á að þann 10. desember síðastliðinn mældist hæsti svifrykstoppur við Hof á Akureyri 416 µg/m³ og sólarhringsmeðaltalið rúmlega 109 µg/m³. Sólarhringsmeðaltalið var því meira en tvöfalt yfir heilsuverndarmörkum og hæstu gildi mældust meira en áttfalt yfir mörkum.
Ekki unnið samkvæmt verklagsreglum nema að litlu leyti
Í kjölfar þessarar miklu svifryksmengunar sendi HNE fyrirspurn til Akureyrarbæjar varðandi verklagsreglur bæjarins um loftmengun utandyra og vinnu samkvæmt þeim. Af svari Akureyrarbæjar má ráða segir í fundargerð, að ekki sé unnið samkvæmt verklagsreglunum nema að litlu leyti.
Tilraunir með notkun á mangesíumklóríð til rykbindingar eru ekki hafnar en þær áttu samkvæmt áætluninni að hefjast núna í vetur. Upplýsingar úr lofgæðamælum sem bærinn setti upp í desember 2022 hafa enn ekki verið gerðar aðgengilegar almenningi en verklagsreglurnar gerðu ráð fyrir að því að svo yrði snemma árs 2024.
Heilbrigðisnefnd bendir á að viðvaranir til almennings hafi ekki verið sendar út fyrr en daginn eftir að ástandið var sem verst og talsvert virðist skorta uppá samstarf bæjarins og Vegagerðarinnar um hreinsun gatna. Takmörkun svifryks sé mikilvægt lýðheilsumál sem nauðsynlegt er að taka föstum tökum og harmar hve takmarkaður árangur hefur náðst í því máli á Akureyri.
Óviðunandi að ekki sé gripið til aðgerða
„Mikilvægt er að veghaldarar sinni viðhaldi, þrifum og rykbindingu eins og til er ætlast og gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi verklagsreglum. Það er óviðunandi að upp komi aðstæður sem teljast verði heilsuspillandi, eins og gerðist t.d. þann 10. desember sl., án þess að gripið sé til viðeigandi aðgerða. Jafnframt er hvatt til að niðurstöður mælinga úr svifryksmælum sem settir voru upp á árinu 2022 verði gerðar aðgengilegar almenningi og að unnið verði skv. fyrirliggjandi verklagsreglum, bæði þegar fyrirsjáanlegt er að mengun verði mikil og út frá niðurstöðum mælinga.“