20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Sjálfbær framkvæmd
Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar á Akureyri var lítið rætt um miðbæjarskipulagið enda hafði það verið samþykkt samhljóða í bæjarstjórn árið 2014. Sumum þykir hins vegar að dregist hefði óþarflega lengi að koma þessu ágæta skipulagi til framkvæmda. Sjálfstæðisflokkurinn lagði þó til í stefnuskrá sinni 2018 að "fallið verði frá þrengingu og tilfærslu Glerárgötu og byggingarreitum í Hofsbótinni breytt til samræmis við það."
Á hinn bóginn kom fram í stefnu Samfylkingarinnar að gengið yrði frá vistvænni Glerárgötu í gegnum miðbæinn í samræmi við gildandi deiliskipulag. Önnur framboð tjáðu sig ekki jafn afdráttarlaust um þennan þátt málsins og opnuðu heldur ekki á að breyta því sem búið var að ákveða í deiliskipulaginu að færa umrædda götu vestan Hofs til austurs og mjókka hana til að hægja á umferð og skapa um leið viðbótarbyggingarreiti í Hofsbót. Allt í samræmi við markmiðið um vistvænan miðbæ þar sem tryggðar verði greiðar leiðir fyrir gangandi vegfarendur, hjólandi eða á bílum. Síðan var kosið og myndaður nýr meirihluti L-lista, Framsóknar og Samfylkingar.
Meirihlutinn lætur undan síga
Í málefnasamningi meirihlutans var "lögð áhersla á að uppbygging vistvæns miðbæjar taki mið af öryggi vegfarenda, skilvirku umferðarflæði, rými til uppbyggingar og fjárhagslegri skynsemi." Núgildandi deiliskipulag tekur einmitt mið af öllum þessum ágætu markmiðum og því ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að nýr meirihluti vindi sér í að framkvæma uppbyggingu í samræmi við það. En trúir sinni stefnu klifuðu Sjálfstæðismenn sífellt á því að það væri alltof dýrt að færa götuna til á umræddum kafla og hægja með því umferðina þar niður í 40 km/klst. eins og stefnt er að enda er það forsenda vistvænnar umferðar. Að lokum virðist sem meirihlutinn hafi hreinlega farið á taugum í málinu og fallist í vandræðagangi sínum á að skoða áðurnefnda stefnu Sjálfstæðisflokksins; skipaði síðan nefnd fyrir ári til að útfæra þessa stefnu og þjóna þar með lund flokks í minnihluta! Nú getur verið að meirihlutinn trúi því að það sé mun minni kostnaður fyrir bæinn að hafa umræddan hluta götunnar á sama stað og mjókka hana ekki. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að það er grundvallarmisskilningur.
Hagkvæmur kostur
Fyrir nokkru gerði virt verkfræðistofa kostnaðar- og tekjuáætlun við að færa umræddan hluta götunnar til austurs og mjókka eftir gildandi skipulagi. Þar er gert ráð fyrir kostnaði upp á röskar 390 milljónir króna. Auðvitað eru þetta miklir fjármunir en þegar þess er gætt að með framkvæmdinni eykst byggingarými vestan götunnar um heila 5000 fermetra er eftir miklu að slægjast. Þarna eru dýrustu lóðir bæjarins og áætlar verkfræðistofan að 100 milljónir króna fáist strax í bæjarsjóð fyrir viðbótarsvæðið í gatnagerðargjöld auk 15 milljóna króna í fasteignagjöld á ári hverju. Af þessu er ljóst að breytingarnar á götunni munu skila sér á 15 til 20 árum. Eftir það verður þetta svæði góð tekjulind fyrir bæjarsjóð í áratugi. Við það bætast svo tekjur sem bærinn fær af öflugri atvinnustarfsemi á þessu viðbótarsvæði sem annars yrði ekki í boði. Tilfærsla og mjókkun götunnar og það viðbótarbyggingarsvæði sem af því leiðir er því mjög góð fjárfesting og "fjárhagslega skynsamleg" eins og meirihlutinn stefnir að. Ekki ætti að vera mikið mál fyrir stöndugt bæjarfélag eins og Akureyri að taka lán fyrir
þessum framkvæmdum og klára þær á næstu misserum. Þá getur þetta nauðsynlega verkefni orðið sjálfbært og þarf ekki að koma niður á öðrum mikilvægum viðfangsefnum bæjarins.
Bak við luktar dyr
Áður en undirbúningur hófst við gerð gildandi miðbæjarskipulags var haldið fjömennt þing á Akureyri um hvað íbúar vildu leggja áherslu á í þeirri vinnu. Á grundvelli niðurstöðu íbúaþingsins gaf Akureyri í öndvegi bænum 152 vandaðar tillögur færustu arkitekta víða að úr heiminum um nýtt skipulag miðbæjarsins. Með skýrskotun til afraksturs þessa viðamikla sjálfboðaliðastarfs afgreiddi bæjarstjórn síðan samhljóða núgildandi skipulag eftir ítarlegar kynningar og umræður við bæjarbúa. Allt mjög opið og lýðræðislegt. En nú fer bæjarstjórnin aðra leið og heldur spilunum þétt að sér. Í heilt ár hefur nefndin, sem áður er getið um, unnið fyrir luktum dyrum "við endurskipun deiliskipulags miðbæjar Akureyrar" eins og segir í samþykkt bæjarstjórnar. Ekki verið rætt við nokkurn mann utan ráðhússins en allri vinnunni haldið leyndri. Því verður áhugafólk að treysta á sögusagnir og tíst fugla sem fljúga yfir ráðhúsið um framvindu þessa mikilvæga málefnis. Einn þessara fugla sagði á dögunum að sér hafi heyrst að búið væri að ráða sérfræðinga til að útfæra frágang Glerárgötu eftir hugmyndum Sjálfstæðismanna. Hins vegar alveg sleppt að ræða við bæjarbúa eins og áður var lagt mikið upp úr; ekkert við þá að tala. Með þessari leynd er greinilega vonast til að hægt verði að ganga svo langt að fólk átti sig ekki og standi að lokum frammi fyrir gerðum hlut sem bæjarbúar verði að sætta sig við og kyngja. Ef þessi spádómur rætist verður broslegt að hlusta næst á bæjarfulltrúa tjá elsku sína á íbúalýðræði.
Hefjumst handa
Þrátt fyrir allt vona margir að bæjarstjórnin sjái að sér og sýni loks framkvæmdahug í þessu mikilvæga málefni svo fjárfestar horfi til Akureyrar um áhugaverð tækifæri í nýjum miðbæ. Þá má líka búast við að akureyskir fjárfestar komist hjá að leita til annarra bæja fyrir sunnan til að koma fjármunum sínum í vinnu eins og nú er að gerast.
Að öllu þessu metnu er löngu tímabært að sextán ára umræður umbreytist nú þegar í sjálfbærar framkvæmdir við uppbyggingu glæsilegs og vistvæns miðbæjar í samræmi við óskir bæjarbúa.
-Ragnar Sverrisson, kaupmaður