Sífellt fleiri ná ekki endum saman og leita aðstoðar hjá Matargjöfum
„Ástandið hefur aldrei verið eins slæmt og núna, það er vaxandi neyð í samfélaginu og því miður alltof margir sem þurfa á aðstoð að halda,“ segir Sigrún Steinarsdóttir sem heldur utan um félagið Matargjafir á Akureyri og nágrenni. Félagið hefur aðstoðað þá sem ná ekki endum saman með matargjöfum og eða innlögnum á kort í matvöruverslun. Fyrir jólin í fyrra nutu 128 manns eða fjölskyldur aðstoðar Matargjafa og höfðu aldrei verið fleiri. Strax fyrstu vikuna í desember höfðu fleiri óskað eftir aðstoð en fengu í fyrra.
Sigrún segir stöðuna virkilega slæma hjá mörgum nú, og í þau níu ár sem hún hefur verið með Matargjafir á sinni könnu hafi hún aldrei séð það svartara. „Við veittum mörgum aðstoð í fyrra, og þá hafði talan aldrei verið jafn há. Ég átti von á aukningu milli ára miðað við hvernig efnahagsástandið hefur þróast, en staðan er þannig að það er ekkert lát á umsóknum og ég veit satt best að segja ekki í hvað stefnir,“ segir hún.
Versnandi efnahagsástand kemur niður á öllum
Versnandi efnahagsástand, verðbólga, hækkandi matarverð og háir vextir gera líka að verkum að þeir sem lagt hafa Matargjöfum lið finna líka fyrir því að æ erfiðara verður að framfleyta sér og sínum. „Við höfum mjög góðan hóp bakhjarla sem lagt hafa okkur lið og án þeirra hefði þetta ekki tekist öll þessi ár. En því er ekki að neita að þetta ástand sem ríkir kemur niður á öllum, það finna allir fyrir þessu og það eru margir sem hafa lítið aflögu til að gefa. Við finnum fyrir því líka.“
Sigrún segir að í fyrsta sinn nú í ár hafi verið efnt til viðburða þar sem aðgangseyrir rennur til Matargjafa, það sé ánægjuleg nýjung og hún mjög þakklát fyrir það. Sem dæmi var á dögunum Gong slökun og þá eru tónleikar í kvöld þar sem ágóði er eyrnamerktur Matargjöfum. „Við höfum ekki áður notið góðs af slíkum en félagið er sýnilegra núna en áður og þetta er breyting sem við njótum góðs af og þökkum fyrir.“
Hátt í 250 beiðnir á mánuði
Þeim sem óska aðstoðar hefur smám saman farið fjölgandi og segir Sigrún að hún hafi nú síðustu mánuði fengið hátt í 250 beiðnir á mánuði. Reynt er að leggja fólki lið með innlögnum á bónuskort og matargjöfum. Sigrún leggur mikið upp úr því að þeir sem þiggja og þeir sem gefa hittist ekki og henni hugnast ekki að sjá fólk í neyð í biðröð eftir matarúthlutun.
„Það er mikið um beiðnir núna fyrir jólin en ég held í bjartsýnina og vona svo sannarlega að líkt og áður nái ég að klóra mig fram út þessu með aðstoð frá öllu því góða fólki sem býr hér í samfélaginu. Það er sem betur fer margt fólk hér um slóðir sem vill láta gott af sér leiða,“ segir Sigrún.