20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Síðustu Sumartónleikarnir í Akureyrarkirkju 2017
Síðustu Sumartónleikarnir í Akureyrarkirkju 2017 fara fram næsta sunnudag, 30. júlí kl. 17.00. Á þessum fimmtu tónleikum sumarsins kemur fram orgelleikarinn Björn Steinar Sólbergsson. Það er vel við hæfi að hann ljúki tónleikaröðinni sem fagnar í ár 30 ára starfsafmæli, en Björn er einn af stofnendum tónleikaraðarinnar.
Flutt verða verk eftir tónskáld á borð við Bach, Pachelbel, Steingrím Þórhallsson, Mendelssohn og Pál Ísólfsson. Aðgangur er ókeypis.
Björn Steinar Sólbergsson er organisti við Hallgrímskirkju í Reykjavík, tekur virkan þátt í blómlegu listastarfi kirkjunnar og er einnig skólastjóri við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Hann stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann á Akranesi og í Tónskóla þjóðkirkjunnar í Reykjavík en framhaldsnám stundaði hann á Ítalíu og í Frakklandi við Conservatoire National de Region de Rueil Malmaison þar sem hann útskrifaðist með einleikarapróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986.
Björn Steinar starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju í 20 ár þar sem hann vann markvisst að uppbyggingu tónlistarstarfs kirkjunnar. Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika víða um heim og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammerhljómsveit Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra.
Björn Steinar hefur hljóðritað fyrir útvarp og sjónvarp og á geislaplötur, m.a orgelkonsert Jóns Leifs hjá útgáfufyrirtækinu BIS sem hlaut einróma lof gagnrýnenda. Hann hlaut Menningarverðlaun DV 1999, Íslensku bjartsýnisverðlaunin 2001 og var valinn bæjarlistamaður Akureyrar 2002. Listammannalaun hlaut hann árið1999 og 2015.
Á þessu ári kemur Björn Steinar fram á tónleikum á Íslandi, í Noregi, Danmörku og Þýskalandi. Styrktaraðilar Sumartónleika í Akureyrarkirkju eru Sóknarnefnd Akureyrarkirkju, Héraðssjóður Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis, Menningarsjóður Akureyrar og Tónlistarsjóður. Tónleikarnir eru hluti af Listasumri á Akureyri.