Síðuskóli bar sigur úr býtum í Skólahreysti

Sigurlið Síðuskóla í Skólahreysti 2017.
Sigurlið Síðuskóla í Skólahreysti 2017.

Síðuskóli á Akureyri er sigurvegari Skólahreysti 2017 eftir æsispennandi úrslitakeppni í Laugardalshöll í gærkvöld. Síðuskóli setti jafnframt nýtt Íslandsmet í hraðaþraut og fór brautina á 2.03 mínútum.

Lindaskóli tryggði sér annað sætið og silfur með glæsilegum árangri og Laugalækjarskóli varð í þriðja sæti og fékk bronsið. Tólf skólar af öllu landinu unnu sér keppnisrétt í úrslitum en yfir 100 skólar hófu keppni í ár. Stemningin var engu lík í Höllinni en keppnin var sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Landsbankinn er stoltur bakhjarl Skólahreysti og færði bankinn skólunum og keppendum vegleg verðlaun.

Nýtt Íslandsmet

Nýtt Íslandsmet var sett þegar Síðuskóli fór hraðaþrautina á 2.03 mínútum en fyrra met var 2.05 mínútur. Það voru þau Raguel Pino Alexandersson og Emla Dögg Sævarsdóttir sem fóru brautina fyrir Síðuskóla.

Halldór Ingvar Bjarnason úr Barnaskólanum á Eyrarakka og Stokkseyri gerði flestar upphífingar en hann tók 47 upphífingar. Aníta Björg Sölvadóttir úr Foldaskóla sigraði armbeygjukeppnina með 48 armbeygjum en Halldór Berg Halldórsson úr Holtaskóla í Reykjanesbæ bar sigur úr býtum í dýfunum og tók 53 dýfur. Eygló Ástþórsdóttir úr Síðuskóla stóð sig best í hreystigreip og náði glæsilegum tíma með því að hanga í 5.35 mínútur.

Sigurlið Síðuskóla skipa Embla Dögg Sævarsdóttir og Raguel Pino Alexandersson (hraðaþraut), Eygló Ástþórsdóttir (armbeygjur og hreystigreip) og Guðni Jóhann Sveinsson (upphífingar og dýfur).

Silfurlið Lindaskóla skipa Telma Sól Bogadóttir og Sigmundur Hafþórsson (hraðaþraut), Heiðrún Arna Vignisdóttir (armbeygjur og hreystigreip) og Aron Bjarkason (upphífingar og dýfur).

Bronslið Laugalækjarskóla skipa Sara Hlín Hjartardóttir og Jónas Ingi Þórisson (hraðaþraut), Sóley Margrét Valdimarsdóttir (armbeygjur og hreystigreip) og Óliver Dór Örvarsson (upphífingar og dýfur).

Aðrir skólar í úrslitum í ár voru Gr. í Stykkishólmi, Brúarásskóli, Gr. Bolungarvíkur, Foldaskóli, Stóru-Vogaskóli, Varmahlíðarskóli, Brekkuskóli, Holtaskóli og Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri. 

Nýjast