Sextugur myndverkamaður, sýning og uppákoma í Deiglunni

Aðalsteinn Þórsson fagnar 60 ára afmæli með sammálun og sýningu í Deiglunni um helgina.   Myndir Aðs…
Aðalsteinn Þórsson fagnar 60 ára afmæli með sammálun og sýningu í Deiglunni um helgina. Myndir Aðsendar

Myndlistarmaðurinn Aðalsteinn Þórsson fagnar sex tugum af lífi. Í tilefni af því hefur hann tekið til afnota fjölnotasalinn Deigluna að Kaupvangsstræti 23 á Akureyri helgina 18. - 20. október, fyrir uppákomu, sýningu og hátíðahöld. Þar gefst gestum og gangandi kostur á að koma, njóta gleðjast og skapa.

Herlegheitin byrja föstudaginn 18. október kl. 17 með sammálun, sem er þáttökugjörningur. Þá verður málað 40 m2 málverk á gólfi Deiglunnar, með frjálsri þátttöku gesta. „Við trúum því að þetta sé stærsta málverk á Akureyri og þótt víðar væri leitað, nema sýnt verði fram á annað,“ segir í tilkynningu.

Verkið verður hengt á veggi Deiglunnar og sýnt það sem eftir verður helgarinnar. Sýning verður opnuð kl. 15 á laugardag með léttum veitingum. Mögulega verður bætt við einhverjum laumuverkum ef veggpláss leyfir.

Á sunnudaginn 20. sjálfan afmælisdaginn opnar sýningin kl. 15 og verður í boði kaffi og sætabrauð.

Aðalsteinn býður öll velkomin sem vilja fagna þessu tímamótum með honum eða eingöngu skoða afrakstur skemmtilegs listverkefnis.

 

Aðalsteinn Þórsson 

 

Nýjast