13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
„Sáum möguleikana þarna í skóginum“
Hjónin Sigríður María Hammer og Finnur Aðalbjörnsson festu kaup á landi austan við Eyjafjörð í september á síðasta ári og hafa nú ráðist í miklar framkvæmdir. Þann 11. Febrúar á næsta ári hyggjast þau opna svo kölluð Skógarböð og nýta þannig heitt vatn sem rennur frá Vaðlaheiðargöngum og út í sjó.
Sigríður segir í samtali við Vikublaðið að framkvæmdirnar gangi vel. Undanfarið hafi verið unnið í lögnum og til standi að reisa á næstunni.
Gamall draumur
„Þetta er eitthvað sem er búið að blunda í okkur hjónunum lengi. Við erum svoddan vatnskempur bæði. Við höfum ferðast víða um heiminn og innan lands og skoðað mörg svona böð,“ segir Sigríður aðspurð um hvers vegna þau ráðist í þessa miklu fjárfestingu. „Svo kannski fæddist þessi hugmynd þegar við keyptum þetta land og sáum möguleikana þarna í skóginum.“
Þau keyptu landið reyndar ekki með það í huga að opna náttúruböð í skóginum. „Þetta er fallegt land og þegar við fórum að labba þarna um í skóginum þá var þetta bara svo brilljant staður og hentar svona vel. Auðvitað er þetta vatn sem rennur frá göngunum búið að renna þarna í mörg ár og það hafa verið áform hér í bænum um að gera eitthvað. En það hefur ekki drifið neitt og öllum fundist það mjög leiðinlegt að vatnið haldi bara áfram að renna út í sjó,“ útskýrir Sigríður.
Hún segir að vatnið sem rennur úr göngunum henti mjög vel í þessa starfsemi. „Miðað við mælingar sem snúa að vatninu þá mun vatnið vera um 38 til 40 gráður í pottinum.“
Góð viðbót í heilsársferðaþjónustu
Náttúruböð hafa verið vinsæl á Íslandi undanfarin ár og er þau að finna víða um land. Sigríður segir að öll þessi böð styðji bara við hvert annað og að Skógarböðin verði góð viðbót í flóruna. „Þetta verður ekki bara fyrir erlenda ferðamenn. Það er oft mikið um að vera á Akureyri, alls konar íþróttamót og alls konar viðburðir allt árið þar sem fólk streymir hingað af suðvesturhorninu. Þá held ég að skógarböðin verði kærkomin viðbót við afþreyingaframboðið á Akureyri.“