Sannkölluð frumsýningargleði um síðustu helgi

Eyrún Arna Ingólfsdóttir og Úrsúla Nótt Siljudóttir í hlutverkum Lísu og kennslukonunnar. Mynd/VMA
Eyrún Arna Ingólfsdóttir og Úrsúla Nótt Siljudóttir í hlutverkum Lísu og kennslukonunnar. Mynd/VMA

Lísa í Undralandi var frumsýnd í Gryfjunni í VMA sl. laugardag og önnur sýning var á verkinu á sunnudag. 

Leikverkið byggir á bók eftir Lewis Carrol, sem flestir ættu að kannast við en hún var fyrst gefin út árið 1865 og hefur verið þýdd á vel á annað hundrað tungumál. Leikgerð sýningarinnar er eftir Margréti Örnólfsdóttur en tónlistin er eftir Dr. Gunna. Leikstjóri er Sindri Swan. Höfundur dansa í sýningunni er Eva Reykjalín.

Þrettán leikarar eru í sýningunni í átján hlutverkum en í henni taka þátt um fimmtíu nemendur VMA og sjá þeir m.a. sviðs-, búninga- og tæknimál og annað sem þarf að gera við uppsetninguna.

Lísa í Undralandi

Sigríður Erla Ómarsdóttir í hlutverki Hjartadrottningarinnar. Mynd/VMA

 Sýnt er í Gryfjunni í VMA (gengið inn að austan), sem hefur verið breytt í flott leikhús. 

„Ferli leikfélagsins þetta árið hefur verið piprað af fjarverum bæði vegna Covid 19 og annarra veikinda. Hægt er að telja fjölda æfinga þar sem allir hafa verið viðstaddir á fingrum annarrar handar og er það til vitnis um þrautseigju þessara ungu einstaklinga sem margir hverjir hafa ekki upplifað hefðbundna skólagöngu síðastliðin ár. Það má taka ómældan innblástur í þolinmæði, úrræðasemi og sköpunargleði nemenda Verkmenntaskólans, sem hafa ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur í kringumstæðum sem margir myndu gera minna,“ segir Sindri Swan í leikskrá sýningarinnar. 

Ekki hefur Covid draugurinn verið kveðinn að fullu niður enn þá en tilkynnt var um það fyrr í dag að sýningar sem fara áttu fram í dag og um helgina hefur verið frestað.  Embla Björk Hróadóttir, formaður félagsins, segir að vegna kóvidsmita sem upp hafi komið í vikunni í leikhópnum sé ljóst að af sýningunum um helgina getur ekki orðið. Þær færist aftur um hálfan mánuð, þráðurinn verði að óbreyttu tekinn upp föstudaginn 25. og laugardaginn 26. mars.

Embla segir að tölvupóstur hafi verið sendur á þá sem höfðu þegar keypt miða á sýningarnar um helgina og þeim greint frá þessari óhjákvæmilegu frestun þeirra til 25. og 26. mars.

Óhætt er að mæla sterklega með sýningunni, enda þykir hún mjög vel gerð á allan hátt. Leikarar standa sig mjög vel, sýningin flýtur vel áfram og umgjörðin er flott. Sérstaklega skal getið flottrar sviðsmyndar og búningarnir, förðun og hárgreiðsla er alveg sér kapítuli.

Á vef skólans er greint frá að mikil frumsýningargleði hafi verið ríkjandi, enda ástæða til. Leikfélag VMA og allir sem að sýningunni komu geta sannarlega borið höfuðið hátt með þessa flottu sýningu. Ekki var annað að sjá en að leikhúsgestir á öllum aldri skemmtu sér vel á frumsýningunni.

 

 

Nýjast