20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Samvinnufélög hvað?
Samvinnufélög – neytendadrifnn rekstur:
Frá byrjun 20. aldar og fram undir 1990 voru samvinnufélög og kaupfélög mjög mikilvægur hlekkur í því blandaða hagkerfi sem skapaði undirstöður velferðar og velmegunar um allt Ísland. Á síðustu 20-30 árum hafa hins vegar algerlega orðið umskipti; – flest kaupfélögin liðu undir lok í hefðbundnum rekstri og SÍS var pakkað, sparisjóðir rændir og útgerðarfélög á vegum sveitarfélaganna ýmist keyrð í þrot eða einka(vina)vædd.
Fákeppni ríkir nú á morgum sviðum – og samþjöppun auðs og áhrifa ætti að vera okkur öllum áhyggjuefni bæði lýðræðislega og einnig efnahagslega. Samvinnufélögum og öðrum félögum neytenda er undantekningarlaust ætlað að bjóða félagsmönnum hagstæðustu kjör og tryggja að mögulegur arður af rekstrinum verði ekki sogaður út úr fyrirtækjum og félögum heldur nýtist eingöngu til frekari þróunar og aukins hagræðis fyrir þá sem skapa ávinninginn.
Markaðsaðhald frá félögum neytenda sem hafa það eitt markmið að halda verðlagi innan hófsemdarmarka hefur sýnt sig að virka vel og getur í einstökum tilvikum verið raunveruleg forsenda fyrir því að samkeppniskraftar virki – ekki síst á litlum markaðssvæðum. Í mörgum nágrannalöndum er neytendadrifinn rekstur með blóma og samvinnufélögum fjölgar jafnvel á ýmsum sviðum.
Verðbóla og fákeppni á húsnæðismarkaði:
Íbúðaverð rýkur upp; húsnæðiskostnaður almennings og sérstaklega þeirra sem eru byrjendur á markaðinum eða þurfa að reiða sig á leigumarkaðinn – er langt úr hófi. Verðtrygging og vaxtaokur heldur áfram með sér-íslenskum fáránleika. Skipulagskröfur og áherslur verktaka beinast að því að byggja fremur dýrar íbúðir – og vegna fákeppni og lítils framboðs er verðið spennt úr hófi. Flest nágrannalönd hafa þroskaðan leigumarkað – þar sem eftirlit er virkt og þak er á verðlagningu – og neytendafélög leika mikilvægt hlutverk.
Alþjóða vinnumálastofnunin (ILO) hefur beint þeim tilmælum til aðildarþjóða allt síðan 2002 að tryggja neytendum aðgang að hagkvæmum lausnum húsnæðissamvinnufélaga eða sjálfseignarfélaga neytenda. Ísland virðist vera eina landið í okkar heimshluta þar sem hreyfingar launþega leggjast ekki á sveif með þessum tilmælum með jákvæðni og þunga.
Utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar hafa verktakar ekki séð sér hag í að byggja íbúðir til sölu – kannski næstum ekkert annað en villur og sumarbústaði. Skortur á húsnæði hamlar því hagfelldri þróun samfélaga og það þótt atvinnutækifæri séu til staðar með vexti ferðaþjónustunnar öðru fremur. Í einstökum sveitarfélögum á landsbyggðinni hafa fyrirtæki farið að byggja yfir starfsmenn „sína“ – og einhvers konar „vinnubúðir“ breytast í heilsársbúsetu fyrir fjölskyldur.
Það er gríðarlega brýnt við ríkjandi aðstæður að sveitarfélög sinni þeim skyldum sem lög um húsnæðismál (nr 44/1998,13.-14.gr.) ætla þeim og vinni samfellt að virkum áætlunum og að- gerðum til að tryggja hagkvæmt húsnæði í viðkomandi sveitarfélagi.
Við núverandi aðstæður er að mati undirritaðs augljóst að neytendafélög – samvinnufélög eða sjálfseignarfélög – eru langlíklegust til að geta skilað almenningi húsnæðisöryggi og valfrelsi á þessum markaði. Með NFP-rekstri (án hagnaðarkröfu) íbúða má lækka verð á dýrustu svæðum og tryggja framboð á jaðarsvæðunum þar sem markaðsaðilar eða braskarar telja sig ekki geta kreist hagnað út úr kaupendum eða leigjendum. Skoðum þetta betur!
Höfundur er framkvæmdastjóri Búfesti húsnæðissamvinnufélags