Samþykkt að kynna tjaldstæðisreit
Skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að kynna hugmyndir að endurskoðun deiliskipulags fyrir tjaldstæðisreit. Kynningargögn voru lögð fram á fundi ráðsins nýverið.
Jón Hjaltason fulltrúi í nefndinni segir í bókun að hann telji fyllilega tímabært að hefja almenna umræðu um stefnumörkun varðandi mótun reitsins. Hann segir gagnrýnisatriði fjölmörg, m.a. fjölda íbúða sem byggja eigi á svæðinu, eða 190 íbúðir í 15 byggingum, hæð bygginganna, allt að fjórar hæðir og einnig stærð þjónustu- og verslunarrýmis, eða um 2000 fermetrar. Fleira mætti telja segir hann í bókun. „Ekki síst að forsenda skipulagsins er röng, ég tala nú ekki um ef litið er á hana frá sjónarhóli þéttingarsinna. Á tjaldsvæðinu á ekki að stefna að fjölbreyttri byggð (blandaðri byggð) heldur þvert á móti, hverfið á að vera einsleitt þar sem höfuðmarkmiðið er að barnafólk byggi reitinn,“ segir Jón.