Samningur um samræmda móttöku flóttafólks
„Það hefur vissulega verið áskorun að finna húsnæði, en hefur tekist og kannski ekki síst þar sem fjöldinn hefur ekki verið meiri,“ segir Anna Marit Níelsdóttir forstöðumaður félagsþjónustu hjá Akureyrarbæ. Í byrjun árs 2023 var skrifað undir samning um samræmda móttöku flóttafólks á Akureyri sem kvað á um að Akureyrarbær í samstarfi við stjórnvöld myndi taka á móti allt að 350 flóttamönnum það ár.
Akureyrarbær hefur síðastliðin ár verið móttökusveitarfélag fyrir flóttafólk og tekið á móti hópum flóttamanna sem stjórnvöld hafa boðið til landsins, auk þess að vera þátttakandi í tilraunaverkefni um samræmda móttöku flóttafólks. Markmiðið er að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að. . Fólk á flótta frá Sýrlandi, Afganistan, Úkraínu og víðar hefur sest að á Akureyri.
Veita þjónustu í þrjú ár
Anna Marit segir að samningurinn hafi hljóðað upp á að Akureyrarbær samþykkti að veita að lágmarki 170 notendum þjónustu samkvæmt samningi við ríkið og að hámarki 350 manns. Hún segir samninginn ná til þjónustu sveitarfélagsins vegna samræmdar móttöku flóttafólks og nær til allt að þriggja ára. Ríkið greiði fyrir félagsþjónustu sem teljist vera umfram það sem almennt er veitt, mest er greitt fyrsta árið og lækki greiðslur eftir það næsta ár á eftir og enn meira þriðja árið. Með því fjármagni sem fæst frá ríki vegna samningsins ræður Akureyrarbær starfsfólk, og greiðir ríkið launin.
„Notendur þjónustunnar eru nú um 220 talsins og hámarkinu hefur því ekki verið ná. Á hverjum tíma detta alltaf einhverjir út, bæði þegar árafjölda er náð eða þá að fólk flyst í burtu,“ segir Anna Marit.