Samkomulag milli heilbrigðisráðuneytis og Dvalarheimilis aldraðra í Þingeyjarsýslu um flutning á þjónustu Dvalarheimilis aldraðra til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands

Dvalarheimilið Hvammur Húsavík.
Dvalarheimilið Hvammur Húsavík.

Dvalarheimili aldraðra sf hefur samið við heilbrigðisráðuneytið um að Heilbrigðisstofnun Norðurlands muni taka yfir rekstri hjúkrunar og dvalarrýma félagsins frá og með 1.febrúar.

DA sf á sér langa og góða sögu sem felur í sér þjónustu við aldraða á starfssvæði félagsins. Margir hafa lagt hönd á plóg til góðar verka þá áratugi sem félagið hefur starfað. Rétt er að benda á að tilgangur félagsins er, samkvæmt samþykktum þess „ að vera samstarfsvettvangur sveitarfélaga er aðild eiga að því, um uppbyggingu aðstöðu og rekstur þjónustu við aldraða á félagssvæðinu.“ Félagssvæðið í dag nær yfir lögsagnarumdæmi eftirfarandi sveitarfélaga: Norðurþings, Tjörneshrepps og Þingeyjarsveit og starfssvæði Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga í Þingeyjasveit.

Starfsemi félagsins í dag er sem hér segir. Rekstur hjúkrunarrýma, dvalarrýma, rekstur leiguíbúða, rekstur búseturéttaríbúða, rekstur dagvistunarúrræða svo eitthvað sé nefnt. Starfsstöðvarnar eru þrjár. Húsavík, Stóra Mörk Kópaskeri og Vík Raufarhöfn. Hjúkrunarrými eru 34, það er 32 almenn hjúkrunarrými og tvö hvíldarrými. Dvalarrými eru 7 og dagvistarrými 23, 13 á Húsavík, 6 á Kópaskeri og 4 á Raufarhöfn. Leigu og búseturéttaríbúðir á starfssvæðinu eru samtals 34.

Fjöldi starfsmanna tengdum rekstri félagsins er rúmlega 50, þar af eru um 44 starfsmenn við hjúkrunarrýmis- og dvalarrýmis þjónustu. Sú þjónusta er innt af hendi með greiðslum frá hinu opinbera, sem reyndar hér og annars staðar hafa ekki dugað til að veita þá þjónustu sem nauðsynleg. Þjónusta hjúkrunarrýma er sérhæfð þjónusta þar sem sérþekking er nauðsynleg og er sú þekking og reynsla best innan raða heilbrigðiskerfisins.

Dvalarheimili aldraðra sf hefur frá árinu 2011 úthýst stjórnun og hjúkrunarþjónustu í Hvammi til HSN með hagsmuni þjónustuþega að leiðarljósi. Megin hluti starfseminnar lýtur að rekstri hjúkrunar þjónustu sem hefur verið til fyrirmyndar. Á undanförnum árum hefur hjúkrunarþjónusta verið stóraukin enda hefur félagið tekið á sig frekari ábyrgð á rekstri fleiri hjúkrunarrýma sem oft hefur verið skortur á á svæðinu.

Aðildarfélög DA sf hafa borið fjárhagslega ábyrgð á rekstri starfseminnar. Ítrekað hafa sveitarfélögin þurft að leggja félaginu til fjármagn vegna þjónustu sem ríkið á í raun að veita. Með þeirri breytingu sem nú er að raungerast, erum við að fylgja í fótspor annarra sveitarfélaga sem stigið hafa þetta skref. Þeim starfsmönnum sem sinnt hafa þjónustu hjá Hvammi (hjúkrunarþætti starfseminnar) , verða boðið sambærileg störf hjá HSN.

DA hefur haft góða reynslu af samstarfinu við HSN sem staðið hefur frá árinu 2011. Félagið telur að þjónustunni verði vel borgið í höndum HSN. Nauðsynlegt er að reka heilbrigðisþjónustu í Þingeyjarsýslu á einni hendi ef starfsemin á að geta haldið og laðað að öflugt starfsfólk til framtíðar.

Nú er svo komið að leiðir HSN og DA skilja, eftir góða samvinnu. Næstu verkefni eigenda DA sf eru að endurskoða samþykktir félagsins og samstarf sitt m.t.t. þess hvernig búsetutækifærum, dagvistunarþjónustu, heilsueflingu, menningu og afþreyingu verði best fyrir komið fyrir eldri borgara á þjónustusvæði DA sf.

Nýjast