Samkaup hafa uppi stór áform á Húsavík

Aðkoma að verslun   Mynd T.ark og samkaup.is
Aðkoma að verslun Mynd T.ark og samkaup.is

„Ég hef séð umræðuna um að staðsetning framtíðar verslunarkjarna á Húsavík ætti að vera meira miðsvæðis og ég skil þá umræðu en hafa þarf í huga þá miklu umferð þungaflutninga sem svona verslunarmiðstöð krefst og því held ég að til lengri tíma litið sé þetta rétt niðurstaða.,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa.

Skipulags og framkvæmdaráð Norðurþings hefur tekið fyrir erindi frá Samkaupum hf. og KSK eignum ehf. þar sem óskað er eftir lóð undir nýja verslunarmiðstöð við Norðausturveg sunnan Þorvaldsstaðaár á Húsavík. Líst ráðinu vel á hugmyndir sem kynntar voru og hefur skipulags- og byggingarfulltrúa verið falið að hefja vinnu við skipulag svæðisins. Skiptar skoðanir eru uppi á Húsavík um staðsetninguna og vilja sumir að betur fari á því að opna nýja Nettóverslun í miðbæ Húsavíkur og efla hann í leiðinni.

Gunnar segir að um langt skeið hafi möguleikar á stækkun verslunarhúsnæðis félagsins á Húsavík verið til skoðunar eða færsla í annað hentugra húsnæði. „Nú í haust fannst mér  þessar umleitanir fullreyndar og hafði samband við Katrínu Sigurjónsdóttur sveitastjóra Norðurþings um mögulegar staðsetningar. Við sóttumst eftir tveimur staðsetningum og lóð sunnan Húsavíkur  og var sú staðsetning sem bæjarfélagið taldi henta best fyrir valin og varð þetta því niðurstaðan,“ segir Gunnar.

Gunnar Sigurðsson forstjóri Samkaupa

 Kanna áhuga fleiri á að vera með

Skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings hafi tekið vel í hugmynd um þróun nýs  verslunarkjarna á svæðinu sem um var sótt og gera megi ráð fyrir að vinna við skipulag svæðisins hefjist innan tíðar. Gera megi ráð fyrir að gera verði einhverjar breytingar á aðalskipulagi sem og deiliskipulagi. 

„Allt þetta ferli tekur tíma en það má áætla að ef vel gengur hjá skipulagsyfirvöldum gæti þetta legið fyrir í fyrsta lagi í haustið 2024. Ég sé fyrir mér að nú í vor verði farið í að kanna áhuga fleiri verslunaraðila, t.d. sérvöruverslanir, bakarí, veitingastaði og apótek. Ef vel gengur þá gætum við byrjað framkvæmdir næsta vor og opnað verslun 18 mánuðum síðar,“ segir Gunnar.

 

Nýjast