Samið um markaðssetningu Norðurlands í tengslum við Akureyrarflugvöll
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, undirritaði á mánudag samning við Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú um markaðssetningu Norðurlands og Austurlands í tengslum við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum og aukið millilandaflug þar. Markaðsstofan fær 20 milljónir til að sinna þessu verkefni á Norðurlandi á þessu ári og Austurbrú fær sömu upphæð fyrir Austurland.
Markaðsstofan hefur undanfarin ár haldið utan um flugklasaverkefnið Air 66N, sem hefur reynst mjög vel. Breska ferðaskrifstofan Super Break stóð fyrir beinum ferðum frá Bretlandi til Akureyrar tvö ár í röð og hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel var byrjuð á slíkum ferðum frá Amsterdam fyrir Covid heimsfaraldurinn og hefur haldið þeim áfram á þessu ári. Þá var nýlega tilkynnt um stofnun flugfélagsins Niceair á Akureyri, sem mun styðja enn frekar við markaðssetningu á Norðurlandi og Akureyrarflugvelli sem valmöguleika í millilandaflugi til og frá Íslandi.
„Það er mikið fagnaðarefni að ráðherra skuli styðja vel við bakið okkur í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem áfangastöðum fyrir beint flug. Nú stefnir í það að flugvöllurinn á Akureyri verði tilbúinn fyrir aukna umferð og þurfum við að geta fylgt því eftir af krafti. Ferðaþjónustan og sveitarfélögin fyrir norðan hafa lagt mikla vinnu í að ná árangri í þessu en það er nauðsynlegt að stjórnvöld standi með okkur af fullum þunga og sýni þannig viljann til að opna nýjar gáttir til landsins og ná árangri á alþjóðlegum markaði,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands.