20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Sameiningarafl eða hagsmunapólitík
Fyrir átta árum beitti L-listinn sér fyrir því að ráðinn yrði bæjarstjóri í stað þess að fela oddvita stærsta flokksins það embætti. Þetta var ekki nein málamiðlun, heldur gerði L-listinn þetta þrátt fyrir að hafa hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Við gerðum þetta vegna sannfæringar okkar um að starf bæjarstjóra sé þess eðlis að best sé að ráða hann faglega. Vissulega er vald meirihluta bæjarstjórnar mikið, en bærinn er ennþá sterkari ef bæjarstjóri vinnur að því að virkja alla þá sem sitja í bæjarstjórn til góðra verka, og þá er gott að geta sett flokkspólitíkina til hliðar.
Það er kannski ekki tilviljun, en á fjögurra ára afmæli þessarar tilhögunar á Akureyri gaf Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, út bókina Hin mörgu andlit lýðræðis. Þar fjallar hann m.a. um hættuna á spillingu í íslenskum sveitarfélögum. Þar kemur meðal annars fram að „til að spilling nái að skjóta rótum þurfi að vera til staðar aðilar sem hafi nægilegt vald [...] til að taka ákvarðanir sem hygla tilteknum hagsmunaaðilum á kostnað annarra“ og segir að pólitískir bæjarstjórar séu í kjöraðstöðu til að lenda í þannig freistni. Niðurstöður höfundar eru skýrar. Hjá pólitískum bæjarstjórum „... eru meiri líkur á spillingu en þar sem faglegir bæjarstjórar eru ráðnir til starfa.“
Við hjá L-lista sjáum enga ástæðu til að breyta tilhöguninni. Við efumst ekki um að þetta starf eigi eftir að taka einhverjum breytingum með nýjum bæjarstjóra. Meirihluti hvers tíma þarf að setja fram metnaðarfull markmið og gefa bæjarstjóra frelsi til að beita sér á opinberum vettvangi. Við teljum þær áskoranir einfaldari viðureignar en að ná böndum á freistnivanda pólitísks bæjarstjóra og koma í veg fyrir hagsmunapólitík upp á gamla mátann.
Setjum x við L á laugardaginn
-Geir Kristinn Aðalsteinsson