Samanburður á gjaldskrám nokkurra sveitarfélaga
Öldungaráð Akureyrarbæjar ákvað að bera saman gjaldskrár nokkurra valinna sveitarfélaga vegna þjónustu við eldri borgara. Starfsmaður Akureyrarbæjar fékk það verkefni að taka þær saman. Síðan tóku fulltrúar EBAK í ráðinu við, bættu við atriðum og aðlöguðu að óskum sínum.
Einn stærsti liðurinn eru fasteignagjöld, sem skiptast í nokkra liði. Samanburður á þeim reyndist erfiður, því þótt prósentan sé misjöfn er fasteignamatið það líka, svo það er eðlilegt að prósentan hjá Akureyrarbæ sé heldur hærri en hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni. Auðveldara er að bera saman afslátt af fasteignaskatti fyrir eldri borgara. Hann er alls staðar tekjutengdur, en viðmiðunarupphæðin til að fá fullan afslátt er lítið eitt lægri hjá Akureyrarbæ en flestum hinum. Það sama má segja um mörkin, þar sem afslátturinn fellur niður. Sum sveitarfélög eru með þrepaskiptan afslátt en önnur hlutfallslegan.
Matur í félagsmiðstöðvunum kostar á bilinu 1.020-1.650, en 1.500 hér í bæ. Reyndar er hægt að fá mat í Reykjavík fyrir 940 kr. í fastri áskrift eða með sérstökum matarmiðum. Nauðsynlegt er að geta þess að víðast kemur maturinn í kössum í miðstöðvarnar og er hverjum og einum skammtað þar, en hér kemur hann í bökkum fyrir hvern notanda. Það hefur eflaust áhrif á verðið.
Gjald vegna stuðningsþjónustu er misjafnt eftir sveitarfélögum, sums staðar er gefinn tekjutengdur afsláttur en það er ekki gert hér. Upphæðin hér virðist ívið hærri en í mörgum öðrum sveitarfélögum.
Akstur með ferlibílum er gjaldfrjáls hér, því hann fylgir gjaldskrá strætisvagna. Aksturinn fylgir víða þeirri gjaldskrá, sem er 315 kr. fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu, en á sumum stöðum kostar aksturinn eitt og hálft fargjald, Akureyrarbær á mikið hrós skilið fyrir fríar almenningssamgöngur.
Þjónusta sveitarfélaga í félagsmiðstöðvunum er mjög misjöfn, bæði eftir sveitarfélögum og innan þeirra. Allt frá því að þau sjái alfarið um starfsemina yfir í að notendur sjái um hana alla, nema eldhússtörfin.
Flest bæjarfélögin leggja félögum eldri borgara til frítt húsnæði til eigin þarfa og til félagsstarfs, en sums staðar eiga félögin sjálf slíkt húsnæði eða þá skrifstofu og fundaherbergi. Í þeim tilvikum greiða þau yfirleitt ekki fasteignagjald. Aðrir styrkir til félaganna eru í ýmiss konar útfærslu.
Margs háttar hreyfiúrræði eru í boði hjá sveitarfélögunum og er erfitt að bera þau saman. Á Akureyri er Virk efri ár samvinnuverkefni Akureyrarbæjar og Félags eldri borgara. Þátttaka í því frábæra verkefni hefur aukist mikið á síðustu mánuðum, það er í sífelldri þróun og eiga flestir að geta fundið þar eitthvað við sitt hæfi.
Það er frítt í sund fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu og víða um land, en hér kostar hver miði 330 kr. og árskort 9.000. Sums staðar er sundgjaldið hærra en hér og jafnvel fer árgjaldið upp fyrir 15.000 kr.
Þegar gjaldskrár Akureyrarbæjar eru settar upp er ávallt gerður samanburður við önnur sveitarfélög og er ekki að sjá að bærinn sé eftirbátur annarra nema helst í því að tekjumörk, vegna afsláttar á fasteignaskatti, eru heldur lægri hér en víða annars staðar.
Hallgrímur Gíslason,
varaformaður öldungaráðs Akureyrarbæjar.