Húsavík - Öflugur breiður baráttuhópur fyrir áframhaldandi flugi
„Við erum með mjög öflugan baráttuhóp sem vinnur af krafti að því að tryggja flugsamgöngur tinn inn á svæðið,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar. Hann segir mikið í húfi og fjölmargir aðilar úr atvinnulífinu, ferðaþjónustunni og heilbrigðiskerfinu hafi gengið til liðs við hópinn.
Framsýn óskaði eftir viðbrögðum frá þingmönnum Norðurlands eystra á dögunum og segir Aðalsteinn að fulltrúar allra flokka, ef frá er talin Flokki fólksins hafi haft samband til að kynna sér málið og heyra í fulltrúum heimamanna. „Okkur finnst mikilvægt að heyra í okkar fulltrúum á Alþingi og að þeir hafi áhuga fyrir þessu málefni sem brennur heitt á fólki hér um slóðir.“
Forsvarsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, sveitarfélaga, ríkisstofnana, fyrirtækja, félagasamtaka sem og almennir íbúar hafa kallað eftir öruggum flugsamgöngum inn á svæðið. Flugleiðin var ríkisstyrkt í þrjá mánuði í vetur, eftir að flugið hafði legið niðri í nokkra mánuði á síðasta ári, en Norlandair kom að því að fljúga til Húsavíkur frá desember fram í mars 2025.
Nú liggur flugið niðri og óvíst er um framhaldið enda komi stjórnvöld ekki að því að styrkja flugið frekar með ríkisstyrkjum. Aðalsteinn segir heimamenn jafnframt gera þá kröfu að viðhaldsverk á flugbraut og flugstöð á Húsavíkurflugvelli, sem eru á samgönguáætlun, verði unnin sem fyrst enda mikilvægt að mannvirkjum sem tengjast flugsamgöngum um völlinn fái eðlilegt viðhald.
Aðalsteinn segir að nú í vikunni hafi flugmálin verið til umræðu á breiðari grunni og fleiri staðir en Húsavík komið að því borði, en óvissa ríkir varðandi flugsamgöngur til fleiri staða á landinu, svo sem til Ísafjarðar og Vestmannaeyja sem dæmi. „Fólk er að stilla saman strengi og sjá hvaða leiðir eru færar,“ segir hann.