Af hverju ætti ég ekki að geta þetta eins og hver annar
Axel Vatnsdal starfsmaður hjá Heilsuvernd Hjúkrunarheimili hafði aldrei stigið fæti inn í framhaldsskóla þegar hann ákvað að skrá sig í sjúkraliðanám síðasta haust, þá 51. árs.
,,Ég hafði í langan tíma velt því fyrir mér að fara í raunfærnimat fyrir sjúkraliðanám hjá Símey. Var margoft búin að fylla út spurningalistann og hætta við. Síðan sagði ég við sjálfann mig að hætta þessari vitleysu, vera ekki að rakka niður þekkinguna sem ég hef og láta vaða, afhverju ætti ég ekki að geta þetta eins og hver annar."
Axel stóðst matið með glæsibrag og fékk 7 áfanga metna. Matið var samstarfsverkefni á milli Símey og Verkmenntaskólanns á Akureyri. Verkmenntaskólinn býður hinsvegar ekki upp á fjarnám í sjúkraliðanáminu og því ekki hentugt með vinnunni. Hann sótti þá um í sjúkraliðanámi hjá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki en fékk þau svör að þau myndu ekki taka mark á raunfærnimatinu sem hann hafði farið í.
Því lá leið Axels í Framhaldsskólann á Húsavík á Sjúkraliðabrú. Þrátt fyrir brösuga byrjun og hindranir hefur hann ekki látið þetta stoppa sig og sinnir náminu meðfram vinnu af miklum áhuga og metnaði. Hann tekur nokkra áfanga í VMA en flesta áfangana tekur hann frá Húsavík og lætur mjög vel af uppsetningunámsins og stafsfólkinu þar. Axel segir það líka vera kost hversu margir skólar séu að bjóða upp á þetta nám því auðvelt er að hoppa á milli og taka áfanga frá öðrum skólum.
,,Ég ætlaði að taka þetta með trompi og klára þetta frá, eins og ég geri alltaf, en áttaði mig svo á því að það væri enginn tilgangur með því, ég þarf ekkert að vera að flýta mér, mér liggur ekkert á."
Axel hvetur alla sem hafa unnið við umönnun í einhvern tíma og hafa áhuga á sjúkraliðanáminu að skrá sig í matið. Þegar hann fór í matið þá var það frítt fyrir þá sem ekki höfðu stúdentspróf. Segir einnig að fólk eigi alls ekki að láta langan spurningalista eða viðtalið stoppa sig.
,,Þetta er ekki eins óhugnarlegt eins og það hljómar. Ef ég get þetta, geta þetta allir."
Frá þessu segir á www.hlid.is