Nautgriparæktarverðlaun BSE afhent Góður árangur á Stóra-Dunghaga

Birgir Arason formaður BSE afhendir Árna Arnsteinsyni fyrrverandi bónda á Stóra-Dunhaga  og faðir/te…
Birgir Arason formaður BSE afhendir Árna Arnsteinsyni fyrrverandi bónda á Stóra-Dunhaga og faðir/tengdarfaðir núverandi bænda á Stóra -Dunghaga viðurkenninguna. Árni fékk tilkynningu um að þegar bændur brygðu sér af bæ væru verkefni afleysingamanns m.a. að taka á móti verðlaunum

Ábúendur í Stóra-Dunhaga fá nautgriparæktarverðlaun Búnaðarsambands Eyjafjarðar fyrir árið 2024 fyrir frábæran myndarbúskap og öflugt ræktunarstarf. Verðlaunin voru afhent á aðalfundi BSE.

Í Stóra-Dunhaga í Hörgársveit er búrekstur rekinn á nafni Stóra-Dunhaga ehf sem rekið er af Halldóri Arnari Árnasyni, sem fæddur er þar og Lilju Dögg Guðnadóttur sem á sínar rætur í Drangshlíðardal undir Austur- Eyjafjöllum í Rangárþingi.

Halldór Arnar og Lilja Dögg hafa búið í um áratug eftir að hafa numið í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Framtíðin er björt þar sem börnin eru orðin þrú og sennilega allt efnilegir bændur segir í rökstuðningi BSE fyrir valinu.

Eftir nokkurra ára búskap var farið að huga að fjósbyggingu sem reis árið 2020. Eftir að flutt var í hið nýja og glæsilega fjós var gamla fjósið endurbætt og þar eru nú nýjar innréttingar með góðum aðbúnaði fyrir uppeldi á kvígum til endurnýjunar á hinum öfluga stofni kúa á bænum. Einnig hafa þau keypt land af nágrannajörð og stöðugt unnið í ræktun lands.

Frábærar afurðir

Fá bú hafa lagt fleiri naut til sameiginlegs ræktunarstarfs á seinni árum en Stóri-Dunhagi. A.m.k. 7 naut hafa lagt í ferðalag suður að Hesti til Nautastöðvar BÍ, einn er enn í uppeldi sem hlotið hefur nafnið Kandís. Jónki 16036 og Róður 16019 náðu báðir þeirri stöðu að verða nautsfeður, á meðan það kerfi var í gangi.

Afurðir um 50 kúa í Stóra-Dunhaga hafa verið frábærar um langt árabil og á seinni árum jafnan um 8.000 kg á hverja kú og í röð efstu búa lands og héraðs og á síðasta ári í efsta sæti á svæði BSE með 8.588 kg. mjólkur að meðaltali eftir hverja þeirra. Kýrnar eru um 50 auk uppeldis sem því fylgir.

Nýjast