Skíðalandsmót Íslands í skíðagöngu Hlíðarfjalli við Akureyri 4.-6. apríl
Dagana 4.-6. apríl mun allt fremsta skíðagöngufólk landsins koma sama í Hlíðarfjalli við Akureyri og etja kappi á Skíðalandsmóti Íslands í skíðagöngu. Mótið er haldið af Skíðafélagi Akureyrar en er einnig alþjóðlegt skíðagöngumót FIS (Alþjóða skíðasambandið).
Besta skíðagöngufólk landsins hefur verið erlendis við æfingar og keppni í vetur og er þetta því í fyrsta skipti í ár sem allir koma saman í keppni. Því má búast við spennandi keppni á Akureyri næstu daga.
Í fyrra sigraði Dagur Benediktsson frá Ísafirði allar göngur mótsins í karlaflokki og verður spennandi að sjá hvort hann muni endurtaka leikinn, eða hvort þeir fjölmörgu ungu og upprennandi skíðagöngumenn sem við eigum muni takast að skáka honum.
Í kvennaflokki hefur Kristrún Guðnadóttir verið ókrýnd drottning skíðagöngunnar um nokkurra ára skeið, en ungar og sprækar skíðagöngukonur eru sífellt að nálgast hana og verður því eflaust um harða keppni að ræða á landsmóti.
Dagskrá mótsins:
Föstudagur: Sprettaganga hefst kl. 15:00 í Hlíðarfjalli
Laugardagur: 3,5 til 10 km ganga með hefðbundinni aðferð. Unglingaflokkur hefst kl. 11:00 og fullorðinsflokkur kl. 12:00. Verðlaunaafhending í Lundarskóla kl. 15:00
Sunnudagur: 3,5 til 15 km skíðaganga með frjálsri aðferð og hópræsingu. Unglingaflokkur hefst kl. 11:00 og fullorðins flokkur kl. 12:00.
Frá þessu segir í fréttatilkynningu frá Skíðafélagi Akureyrar.