Svifryk spillir loftgæðum
Svifryk hefur mikil áhrif á loftgæði á Akureyri í þessari stillu sem nú er, á heimasíðu bæjarins er varað við þessu ástandi.
Svifryksmælir við Strandgötu sýndi slæm loftgæði kl. 10 og þvi miður er líklegt að staðan eigi eftir að versna þegar líður á daginn. Unnið er að rykbindingu en þó rétt að vara viðkvæma við svifrykinu.
Ef ástandið versnar þá er hætt við að viðkvæmir einstaklingar og einstaklingar með astma eða aðra undirliggjandi lungna- og/eða hjartasjúkdóma geti fundið fyrir einkennum vegna loftmengunar. Verði loftmengun mikil ættu einstaklingar með alvarlega hjarta- og/eða lungasjúkdóma að forðast að vera úti þar sem hætta er á mikilli mengun.
Forðast ætti að vinna erfiðisvinnu eða að stunda líkamsrækt utandyra þar sem loftmengun er mikil.
Hægt er að fylgjast með stöðu mála á vef Umhverfis- og orkustofnunar.