Óánægja í Hrísey með verðhækkun í ferjuna

Boðuð verðhækkun í ferjuna Sævar sem siglir milli Árskógssands og Hríseyjar hefur farið illa í íbúa …
Boðuð verðhækkun í ferjuna Sævar sem siglir milli Árskógssands og Hríseyjar hefur farið illa í íbúa eyjarinnar

„Það er í raun verið að takmarka möguleika á ferðum bæði til og frá Hrísey yfir vetrartímann, sem takmarkar möguleika á að sækja viðburði, kvöldnámskeið og heimsóknir til ættingja og vina sem búa í fjarlægð frá Eyjafjarðasvæðinu,“ segir Ásrún Ýr Gestsdóttir í Hrísey. Íbúar í eynni vöktu á því athygli að Almannasamgöngur sem sjá um rekstur Hríseyjarferjunnar Sæfara fyrir Vegagerðina hækka verðskrá sína 1. maí næstkomandi.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur lýst yfir vonbrigðum með boðaða hækkun á gjaldskrá Hríseyjarferjunnar Sævars, þar sem gert er ráð fyrir að fargjald fullorðinna í upphringiferðir rúmlega tvöfaldist og fargjald ungmenna, öryrkja og ellilífeyrisþega í sömu ferðir rúmlega fjórfaldist. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að kalla eftir rökstuðningi hjá Vegagerðinni.

Ásrún Ýr segir skiljanlegt eins og staðan er nú að hækka þurfi gjöld og því sýni hún fullan skilning. Það verði þó að vera innan skynsamlegra marka. Nefnir hún að hækkun á svonefndum upphringiferðum sé mikil, fari úr 850 krónum fyrir börn og 1.700 fyrir fullorðna í 3.700 krónur á hvern haus. Enginn afsláttur til barna, eldri borgara eða öryrkja, „er eins svívirðileg og hugsast getur.“

Bætir Ásrún við í færslu á facebook síðu sinni að þeir sem búi í Hrísey vita að þeir hafi takmarkaðri möguleika á að sækja ýmsa viðburði í landi fram eftir kvöldi. „Með nýrri gjaldskrá er enn frekar verið að takmarka þá möguleika, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk og fólk með lægri tekjur.“ Hún er óánægð með að ekki var rætt við neinn í eynni áður en ákvörðun var tekin, líklegast við skrifborð í Reykjavík. „Ég mun aldrei hætta að berjast fyrir samfélaginu okkar hér í Hrísey. Ekki frekar en nágrannar mínir og vinir hér í eyjunni,“ segir hún.

Önnur höndin gefur en hin tekur

„Það er algjörlega óþolandi að ríkisstofnun skuli boða slíka verðhækkun og skerða þar með búsetuskilyrði okkar sem búum í Hrísey á svipuðum tíma og styrkir hafa fengist frá ríkinu til að styðja við byggð í eyjunni. Önnur höndin gefur en hin tekur. Fólksfjölgun og uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár, ungu fólki fjölgað og bjartsýni aukist,“ skrifar Ingólfur Sigfússon formaður hverfisráðs Hríseyjar.

Ingólfur nefnir sem dæmi að fyrir sína fjölskyldu mun ein upphringiferð fara úr 5.100 kr. í 14.800 kr. „sem er líklega álagning sem fæstir myndu sætta sig við fyrir t.d. tónleika sem standa lengur en til kl. 21 að kvöldi í desember sem dæmi.“ Boðuð verðhækkun bitni að langmestu leyfi á íbúum eyjarinnar og skerði verulega möguleika fólks að stunda félagsstarf, íþróttastarf, sækja menningarviðburði. „Við munum ekki sætta okkur við þetta þegjandi og hljóðalaust,“ segir Ingólfur.

Nýjast