„Við höfum séð fólk blómstra – ekki bara í starfi, heldur sem einstaklingar“

Helgi Þór Ingason, prófessor við HR til vinstri, ásamt félaga sínum Hauki Inga Jónassyni   Mynd aðse…
Helgi Þór Ingason, prófessor við HR til vinstri, ásamt félaga sínum Hauki Inga Jónassyni Mynd aðsend

„Við hófum samstarf við Símenntun Háskólans á Akureyri haustið 2011, þegar fyrsti hópurinn hóf nám í Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun, eða VOGL eins og það er stundum kallað. Þetta voru 18 einstaklingar, allir af Norðausturlandi – frá Akureyri, Egilsstöðum, Fjarðarbyggð, Húsavík og Tröllaskaga. Frábær hópur sem lagði grunn að því sem við höfum byggt upp síðan,“ segir Helgi Þór Ingason, prófessor við HR. Ásamt félaga sínum Hauki Inga Jónassyni leiðir hann VOGL námið hjá Símenntun HA.

Námið sjálft á sér þó enn lengri sögu, því það var fyrst kennt árið 2003 við Endurmenntun HÍ. Frá upphafi hefur VOGL verið í stöðugri þróun, bæði hvað varðar innihald og kennsluaðferðir. „Við höfum fínstillt innihald námsins og kennsluaðferðir reglulega – meðal annars með fjórum íslenskum kennslubókum sem við höfum sjálf skrifað. Kennsluaðferðin byggir á vendikennslu: nemendur hlusta á fyrirlestra á netinu og mæta svo í staðlotur þar sem unnið er markvisst með efnið í vinnustofum sem eru bæði krefjandi og skemmtilegar.“

VOGL-námið hefur laðað að þátttakendur úr öllum geirum – bæði einstaklinga og starfsfólk fyrirtækja, stofnana og félagasamtaka. „Algengt er að vinnustaðir sendi hópa starfsmanna í námið til að samræma hugtakanotkun og efla teymisvinnu og árangur. Nemendur fá tækifæri til að takast á við raunveruleg verkefni úr eigin vinnuumhverfi og vinna saman að lausnum undir handleiðslu reyndra kennara.“

Kennslan fer fram í fjórum staðlotum – tvær á hvorri önn – og hver þeirra spannar fjóra daga. Í haustlotunni eru tekin fyrir námskeið í stefnumótun og leiðtogafærni, og á vormisseri eru það samskipti og stjórnun verkefna sem eru í forgrunni. Allir fyrirlestrar eru aðgengilegir á lokuðum námsvef og nemendur mæta undirbúnir í staðloturnar, þar sem áhersla er lögð á úrvinnslu og virka þátttöku.

„Markmið okkar hefur alltaf verið að efla nemendur bæði faglega og sem einstaklinga – þeir verða sterkari í starfi en líka sem manneskjur. Það skiptir öllu máli,“ segir Helgi. „Við höfum séð fólk blómstra og ná nýjum hæðum í starfi, en líka öðlast sjálfstraust, dýpri skilning á mannlegum samskiptum og getu til að leiða aðra.“

Næsti hópur í VOGL-námið hefst í september og skráning er þegar hafin á www.smha.is. „Ekki bíða – fyrstir koma, fyrstir fá!“ bætir Helgi við með bros á vör.

Nýjast